Dumitru Calin, rúmenskur karlmaður á þrítugsaldri, var í vikunni dæmdur í óskilorðsbundið þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir manndráp af gáleysi og fleiri brot. Dómurinn féll í Héraðsdómi Reykjaness vegna andláts Daníels Eiríkssonar sem lést eftir að hann hafði dregist með bíl Calins í um 14 metra.
Calin játaði verknaðinn en sagði að um neyðarvörn hafi verið að ræða. Á það féllst Héraðsdómur Reykjaness ekki.
Fyrir dómi sagði Calin að hann þeir Daníel hefðu mælt sér mót til þess að eiga í fíkniefnaviðskiptum. Calin vissi ekki að Daníel væri maðurinn sem hann myndi hitta og öfugt. Að sögn Calins höfðu þeir áður átt í hörðum deilum og því hafi hann orðið hræddur þegar hann hitti Daníel. Sá hafi haft í hótunum við Calin og reynt að komast inn í bíl hans. Í kjölfarið flúði Calin af vettvangi með Daníel haldandi í opna rúðu við bílstjórasætið. Calin keyrði á um 15 til 20 kílómetra hraða út af bílaplaninu og Daníel dróst þannig eða hljóp með bílnum að minnsta kosti 13,9 metra, að því er fram kemur í dómnum. Í kjölfarið ók Calin af vettvangi án þess að athuga með ástand Daníels sem hafði fallið í jörðina. Hann lést á sjúkrahúsi daginn eftir vegna höfuðáverka.
Héraðsdómur dró ekki í efa að Calin hefði orðið hræddur við Daníel en að Calin hefði mátt vera ljóst að hann stofnaði Daníel í stórhættu með athæfinu. Þá var sömuleiðis bent á að ekkert hafi komið fram um að Daníel hefði borið á sér hættulega hluti, að atvikið hafi orðið að morgni fyrir utan fjölbýlishús og Calin hefði því getað kallað á hjálp ef Daníel hefði veist að honum. Í dómnum segir að viðbrögð Calins hafi verið töluvert harkalegri en efni voru til.
Ásamt fangelsisvistinni var Calin gert að greiða foreldrum Daníels þrjár milljónir króna í miskabætur, rúma milljón króna í útfararkostnað og 700 þúsund krónur í málskostnað. Calin var einnig dæmdur fyrir nokkur fleiri brot, m.a. fjársvik og akstur undir áhrifum fíkniefna.