Gagnrýna seinagang með ríkisborgararétt

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir skaut föstum skotum á ríkisstjórnina í dag.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir skaut föstum skotum á ríkisstjórnina í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þingmenn Pírata vöktu athygli á því í þinginu í dag að innviðaráðuneytið hafi ekki enn skilað umsóknum um íslenskan ríkisborgararétt til þingsins. Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir umsagna að vænta á næstu vikum. 

Sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, að Útlendingastofnun bæri samkvæmt lögum að skila umsögn til þingsins til þess að vinna með hælisumsóknirnar. 

„Það að meirihluti þessa þings, forseti Alþingis, leyfi Útlendingastofnun og ráðherra að ganga gegn þessum skyldum, það er Alþingi að leyfa framkvæmdavaldinu að brjóta lög sem Alþingi hefur sett. Hver á að treysta Alþingi sem tekur ekki einu sinni upp hanskann fyrir sjálfu sér, þegar brotið er á lögum sem þingið setti um sína eigin vinnu?,“ spurði Þórhildur. 

Segir stjórnvöld ekki hafa faðminn opinn gagnvart öllum flóttamönnum

Á eftir henni steig Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, í pontu og fjallaði um sama mál: 

„Herra forseti, „faðmurinn er opinn“, heyrist þessa dagana frá ráðherrum í fordæmalausri samstöðu með fólki á flótta. Faðmurinn er opinn vegna þess að fólk tengir einhvern veginn við hörmungarnar sem eru að ganga yfir Úkraínubúa. En hvað er faðmurinn þegar kemur að því að afhenda alþingi umsóknir fólks um ríkisborgararétt samkvæmt lögum? Þá er hann nefnilega dálítið lokaður, herra forseti,“ sagði Andrés Ingi. 

Andrés Ingi segir stjórnvöld ekki hafa faðminn opinn gagnvart öllu …
Andrés Ingi segir stjórnvöld ekki hafa faðminn opinn gagnvart öllu flóttafólki. mbl.is/Arnþór

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tók þá til máls og tók undir með þingmönnunum og sagði málið hafa gengið alltof lengi.

„Því miður erum við ekki búin að afgreiða þær umsóknir sem bárust undir lok síðasta árs,“ sagði hún. „Stjórnvöld hafa fengið umsagnir um liðlega helming þeirra umsækjenda sem sóttu um ríkisborgararétt til alþingis og fleiri umsagna sé að vænta á næstu dögum og vikum.“

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert