Gata eða torg verða kennd við Úkraínu eða Kænugarð

Skipulags- og samgönguráð borgarinnar samþykkti tillögu um að finna götu …
Skipulags- og samgönguráð borgarinnar samþykkti tillögu um að finna götu eða torgi nafn sem vísaði til Úkraínu eða Kænugarðs. Samsett mynd

Skipulags- og samgönguráð Reykjavíkurborgar hefur samþykkt að nafnanefnd borgarinnar verði falið að gera tillögu að götu eða torgi í Reykjavík sem kennt verður við Úkraínu eða Kænugarð. Var þetta samþykkt á fundi ráðsins í dag.

Var þetta ákveðið í kjölfar tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í ráðinu um að breyta nafni Garðastrætis í Kænugarðsstræti, eða að finna annan viðeigandi stað fyrir slíkt nafn. Lagði ráðið fram breytingartillögu um að nafnanefndin ætti að gera tillögu um götu eða torg og koma með tillögu að mögulegum staðsetningum og nöfnum og skila þeim til ráðsins. Var sú tillaga samþykkt á fundinum.

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni, vakti upphaflega athygli á þessari hugmynd og sagðist ætla að leggja tillöguna fram, en sem kunnugt er stendur rússneska sendiráðið við Garðastræti.

Í upphaflegri tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sagði: „Nafnanefnd verði falið að breyta nafni Garðastrætis í Kænugarðsstræti, eða finna annan viðeigandi stað eftir atvikum. Tengsl Íslands og Kænugarðs ná yfir þúsund ár eins og lesa má um í fornum ritum. Enn þann dag í dag eru talsverð viðskipti og menningarleg tengsl milli Íslands og Úkraínu. Í dag er hart sótt að Úkraínu og höfuðborg hennar. Það er því við hæfi að minnast Kænugarðs að fornu og nýju með því að nefna götu í Reykjavík Kænugarðsstræti.”

Eyþór Arnalds.
Eyþór Arnalds. mbl.is/Arnþór Birkisson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert