Staðan í vatnsbúskap Landsvirkjunar er með þyngsta móti og staða miðlunarlóna enn lægri en spáð var í janúarlok. Áfram verður allt gert til að tryggja afhendingu á forgangsorku.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsvirkjun þar sem einnig segir að miðað við stöðuna núna muni skerðingar standa út aprílmánuð. Auk þess hefur Landsvirkjun leitað eftir endurkaupum á raforku hjá stórnotendum og virkjað slík ákvæði þar sem samningsbundnar heimildir eru til staðar.
„Yfirstandandi vatnsár er eitt hið erfiðasta í sögu Landsvirkjunar. Þurrkar sl. sumar og haust gerðu að verkum að Þórisvatn fylltist ekki, en það er mikilvægasta miðlunarlónið á stærsta vinnslusvæði fyrirtækisins. Þrátt fyrir að margar lægðir hafi gengið yfir landið í febrúar þá voru þær kaldar og fluttu með sér snjó, en ekki regn, svo enginn vetrarbloti kom inn á hálendið,“ segir í tilkynningunni.
„Sá snjór mun vissulega skila sér í lónin áður en yfir lýkur, en hjálpar ekki í núverandi stöðu. Yfirborð Þórisvatns lækkar nú um 1 m á viku, sem þýðir að verulega þarf að hlána í síðasta lagi um miðjan apríl, ef það á ekki að tæmast. Innrennsli í Tungnaá mælist nú minna en árið 2014, þegar síðast þurfti að grípa til skerðinga.“
Fram kemur að óveður í febrúar hafi einnig settt strik í reikninginn í rekstrinum þegar skerða þurfti raforkuflutninga milli landshluta vegna rofs á Byggðalínu. Auk er bent á tímabundið rof á orkuvinnslu í lok febrúar í Vatnsfelli, á Sultartanga og í Búrfelli, vegna illviðris.
„Við hjá Landsvirkjun leggjum okkur hér eftir sem hingað til fram um að mæta viðskiptavinum okkar af sanngirni. Staðan er erfið og við gerum okkur vel grein fyrir að skerðingar og endurkaup koma illa við viðskiptavinina. Allar takmarkanir á afhendingu raforku, sem við höfum þurft að grípa til, eru í samræmi við samninga. Við vonum sannarlega að milt vor hjálpi okkur að komast út úr þessari stöðu,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, í tilkynningunni.