Gul viðvörun í allan dag

Gular viðvaranir eru í gildi á Austfjörðum og á Suðausturlandi.
Gular viðvaranir eru í gildi á Austfjörðum og á Suðausturlandi. Kort/Veðurstofa Íslands

Gul viðvörun vegna veðurs er í gildi á Austfjörðum og Suðausturlandi, og verður að öllu óbreyttu þangað til klukkan sex í fyrramálið á morgun. 

Þar er spáð talsverðri og mikilli rigningu og búast má við auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum. Þetta eykur hættu á flóðum og skriðuföllum og getur auk þess valdið tjóni og raskað samgöngum, að því er segir á vef Veðurstofunnar.

Ekki talin hætta í byggð

Í tilkynningu Veðurstofunnar frá því í gær segir að uppsöfnuð úrkoma frá fimmtudagseftirmiðdegi og fram á laugardagsmorgun gæti víða orðið milli 200-300 mm til fjalla, mest á svæðinu frá Öræfum að Stöðvafirði. 

Ekki er talin hætta í byggð en fylgst verður með aðstæðum. Þá er búist við minni rigningu á Seyðisfirði en sunnar á Austfjörðum. Litlar líkur eru taldar á að þessi rigning hafi teljandi áhrif á stöðugleika í gamla skriðsárinu.

Allt að tíu stiga hiti

Búist er við suðaustanátt 13-18 m/s víða í dag. Á Norðurlandi verður þurrt en útlit er fyrir skúrir suðvestan- og vestanlands en annars rigning suðaustanlands.

Hiti verður á bilinu þrjú til tíu stig. Í kvöld er útlit fyrir að það lægi.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert