Óhemjumikill éljagangur í Eyjum

Gríðarlegur hávaði fylgdi þessum stóru éljum.
Gríðarlegur hávaði fylgdi þessum stóru éljum. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

„Þetta var eiginlega ekki íslenskt í raun og veru. Þetta var frekar útlenskt og eins og í einhverri bíómynd eða fræðslumynd,“ segir Óskar Pétur Friðriksson, ljósmyndari mbl.is.

Hann segist aldrei hafa séð nokkuð þessu líkt en óhemjumikill éljagangur var í Vestmannaeyjum um hálfsex nú síðdegis.

Óskar var inni í eldhúsi heima hjá sér þegar hann varð var við éljaganginn og fór að spá hvaða trommuhljóð um var að ræða en þá var glugginn opinn inni á baði hjá honum og élin skullu á lokinu á ruslafötunni. „Þetta var bara eins og trommusláttur.“

43 mínútur að bráðna

„Ég horfði svo agndofa á þetta töluverðan tíma þangað til ég fattaði það að ég yrði nú að mynda þetta eitthvað,“ segir Óskar sem ákvað þá að fara út og taka eitt haglélið með sér inn. Það reyndist tveir sentímetrar í þvermál og var það heilar 43 mínútur að bráðna inni í eldhúsi hjá Óskari þar sem var 20,2 gráðu hiti.

Haglélið var tveir sentímetrar í þvermál og var 43 mínútur …
Haglélið var tveir sentímetrar í þvermál og var 43 mínútur að bráðna.

Óskar segir éljaganginn ekki hafa staðið lengi yfir, kannski 10 mínútur. En óskaplegur hávaði fylgdi honum, eins og heyra má af meðfylgjandi myndbandi.

„Það buldi á þakinu og rúðunum þannig þetta voru rosaleg læti,“ segir Óskar og bætir við að hann hafi verið að elda kvöldmat þegar hann varð fyrst var við lætin og maturinn steingleymdist á meðan.

Heyrði í éljaganginum færast yfir eyjuna

Eftir að stytti upp við hús Óskars heyrði hann éljaganginn færast yfir eyjuna og hann hlustaði alveg þar til hann var kominn út í sjó.

„Þegar að þetta var komið yfir Heimaklett og út í sjó þá var bara þögn,“ bætir hann við.

Haglélin þekja lóð Óskars.
Haglélin þekja lóð Óskars. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert