Saga í borkjörnum fyrir sérfróða

Kjarnarnir eru engin léttavara. Frá vinstri eru Hrafnkell Hannesson, Fransie …
Kjarnarnir eru engin léttavara. Frá vinstri eru Hrafnkell Hannesson, Fransie Williams, jarðfræðingur og sumarstarfsmaður í fyrrasumar, og María Helga Guðmundsdóttir, umsjónarmaður safnsins.

Borkjarnasafn Náttúrufræðistofnunar Íslands á Breiðdalsvík lætur ekki mikið yfir sér, en þar er að finna sögu sem sérfróðir geta lesið. Jarðfræðingurinn María Helga Guðmundsdóttir er staðarhaldari og umsjónarmaður safnsins og hún segir fullt tilefni til að byggja upp vandaða innviði í kringum borkjarnasafn á Íslandi og laða að erlenda fræðimenn. „Jarðfræði Íslands er merkileg á heimsvísu og mikil verðmæti og þekking í þessu safni,“ segir María Helga.

Ákvörðun um flutning safnsins frá Akureyri til Breiðdalsvíkur var tekin 2015 og hægt og bítandi hefur starfsemin verið byggð upp í gamla sláturhúsinu á staðnum. María Helga hóf störf á Breiðdalsvík fyrir ári og segir að hlutverkið sé meðal annars að halda uppbyggingunni áfram og skapa betri umgjörð sem nýtist fræðimönnum enn frekar til rannsókna. Safnið hefur verið hluti af starfsemi Náttúrufræðistofnunar frá lokum síðustu aldar, en NÍ hefur það lögboðna hlutverk að varðveita borkjarna, sem falla til við jarðboranir og eru nauðsynleg gögn við jarðvísindalegar rannsóknir.

Fjölbreytt og ólík verkefni

María Helga er í hálfu starfi, jafnframt því sem hún starfar hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Breiðdalsvík, þar sem jarðvísindi og málvísindi eru í hávegum höfð. Verkefnin eru því æði fjölbreytt; sem dæmi hefur María staðið að skipulagningu málþings um ritun íslenskrar bókmenntasögu og arfleifð breiðdælska fræðimannsins dr. Stefáns Einarssonar, sem fram fer á setrinu þann 19. mars.

Hennar hægri hönd í borkjarnasafninu er Hrafnkell Hannesson og segir María Helga það mikinn kost að hann hafi lyftarapróf og þekki safnið eins og lófa sína. Það er líka eins gott því í safninu er að finna kjarna úr yfir 1.300 borholum og gæti lengd þeirra samtals verið um og yfir 50 kílómetrar, sem er að finna í hillum og á brettum í safninu. Alls hundruð tonna af grjóti! Allt er vandlega skráð í gagnagrunn og hægt að ganga að hverjum einstökum borkjarna og uppruna hans.

Ekkert grín að fiska grjót upp úr jörðinni

Borkjarnarnir eru afurð rannsóknaborana, sem annars vegar eru gerðar við gerð mannvirkja eins og jarðganga og virkjana og hins vegar í vísindalegum tilgangi. Stór hluti kjarnanna á ættir að rekja til verkefna á vegum Orkustofnunar, Landsvirkjunar og Vegagerðarinnar svo dæmi séu nefnd.

Séð inn í aðalrýmið þar sem borkjarnar fylla margar hillur.
Séð inn í aðalrýmið þar sem borkjarnar fylla margar hillur. Ljósmynd/María Helga

Boranir eru kostnaðarsamar „og ekkert grín að fiska grjót upp úr jörðinni af mörg hundruð metra dýpi“, eins og María Helga orðar það. „Þessir borkjarnar eru ómetanleg heimild um það sem leynist í jörðinni undir fótum okkar. Við jarðfræðingar erum alltaf að reyna að finna út hvað er að gerast undir yfirborðinu og geta í eyðurnar. Því er dýrmætt að hafa safn borkjarna úr ýmsum áttum og geta lesið úr þessu heimildasafni margvíslegar upplýsingar. Þetta er í raun eins og bókasafn nema hvað í stað bóka eru þarna borkjarnar þar sem við getum lesið jarðlög, uppbyggingu, efnasamsetningu og eðlisfræðilega eiginleika jarðarinnar.“

Krúnudjásnin úr Surtsey

Vísindamenn geta hvort sem er komið í safnið og tekið sýni úr tilteknum kjörnum eða sent erindi til safnsins og beðið um þjónustu.

-En eru allir kjarnarnir jafn merkilegir?

„Í sjálfu sér eru allir kjarnarnir og allar borholurnar merkilegar, en sumar eru þó merkilegri en aðrar. Þannig varðveitum við fjóra borkjarna úr Surtsey. Þeir eru trúlega krúnudjásnin í safninu.

Þar er líka mjög merkilegur kjarni úr tveggja klílómetra djúpri holu sem boruð var í Reyðarfirði í rannsóknaborun á áttunda áratugnum. Þar var verið að reyna að finna hliðstæðu við úthafsskorpuna í þeirri von að geta fengið innsýn í uppbyggingu hafsbotnsins. Í ljós kom að skorpan í Reyðarfirði var talsvert frábrugðin því sem búist var við og stafli hrauna sem runnið höfðu á yfirborði jarðar náði alla leið niður á botn holunnar,“ segir María Helga.

Gögn gætu skýrt ráðgátur

María Helga er nýkomin úr starfsþjálfun í Þýskalandi og heimsótti meðal annars borkjarnasöfn í Berlín og Bremen. Hún segir að í Þýskalandi séu starfandi mörg borkjarnasöfn og sum þeirra séu meðal þeirra fremstu í heiminum. Margt megi nýta úr starfi þessara safna til að byggja upp safnið á Breiðdalsvík.
Borkjarnar geta hugsanlega varpað ljósi á atburði þegar loftsteinn lenti …
Borkjarnar geta hugsanlega varpað ljósi á atburði þegar loftsteinn lenti á jörðinni fyrir 65 milljónum ára og svarað spurningum um útdauða risaeðlanna. AFP

„Safnið í Bremen er rekið á vegum alþjóðlegs rannsóknaverkefnis sem heitir á ensku International Ocean Discovery Program. Það er eitt þriggja safna sem heldur utan um kjarna úr þessu alþjóðlega verkefni þar sem borað er í hafsbotninn, en verkefnin eru víða um heiminn. Á hverju ári er farið í rannsóknasiglingu og reynt að afla gagna sem varpa ljósi á tilteknar ráðgátur.

Sem dæmi var borað í Mexíkó-flóa árið 2016 til að skoða jarðfræðilegar birtingamyndir loftsteinsins sem á að hafa útrýmt risaeðlunum. Rannsóknir á þessum kjörnum hófust þegar um borð í skipinu á leið til hafnar, en frumrannsakendur í siglingum IODP hafa einkarétt á rannsóknum í tvö ár. Eftir það eru kjarnar og gögn gerð aðgengileg ölllum sem vilja gera eigin rannsóknir, með ákveðnum skilyrðum til að tryggja áframhaldandi varðveislu kjarnanna,“ segir María Helga.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert