„Mér finnst sorglegt hvernig þetta mál hefur verið að þróast. Ég hefði vonast til þess að menn hefðu getað leyst þetta með öðrum hætti frekar en að fara í þessar miklu og stóru aðgerðir.“
Þetta segir Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags á Húsavík, í samtali við mbl.is um hópuppsögn Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, á öllu starfsfólki félagsins.
Bæði Drífa Snædal, formaður ASÍ, og Friðrik Jónsson, formaður BHM, hafa fordæmt uppsagnirnar.
Í samtali við mbl.is í dag harmaði Svanhildur Ólöf Þórsteinsdóttir, varaformaður VR, uppsagnirnar. Hún sagði jafnframt alla í stjórn VR vera sammála um málið.
Aðalsteinn fordæmir ekki uppsagnirnar en segir að hann hefði sjálfur ekki valið að fara þessa leið.
„Ég ætla ekki að fordæma neitt en ég hefði aldrei valið þessa leið.“
Að sögn Aðalsteins eru hann og Sólveig Anna á sömu línu í verkalýðshreyfingunni, þau vilji bæði sjá róttækar breytingar. Hann segir Sólveigu Önnu vera góðan bandamann og ber ennþá mikið traust til hennar þrátt fyrir að vera almennt á móti hópuppsögnum.
„Ég treysti henni til þess að vinna sig í gegnum þetta. Ég get þó aldrei mælt með svona leið. Almennt er ég á móti fjöldauppsögnum og hef talað fyrir því að menn reyni frekar að koma í veg fyrir svona aðgerðir.“
Spurður hvort að ekki sé búið að gefa fyrirtækjum frítt spil í starfsmannamálum telur Aðalsteinn svo ekki vera.
„Alls ekki. Þetta hefur verið gagnrýnt úr öllum áttum, ekki síst frá fyrirtækjum. Þannig að þau hljóta að átta sig á því að þetta sé leið sem eigi ekki að fara.“