Grabríel Douane Boama, karlmaðurinn sem slapp úr gæsluvarðhaldi og lögreglan leitar nú, sagðist á Instagram í gærkvöldi vera í Vesturbænum. Staðsetninguna setti hann í sögu sína á samfélagsmiðlinum á níunda tímanum í gærkvöldi.
Fréttablaðið vakti fyrst athygli á þessu.
Gabríel bætti tveimur myndum við sögu sína á Instagram í gær en sú fyrri birtist fyrir tæpum sólarhring síðan og sýndi hann með öðrum manni.
Lögreglan lýsti opinberlega eftir Gabríel um klukkan ellefu í gærkvöldi en hann strauk úr héraðsdómi um sjöleytið í gærkvöldi þegar mál hans var til meðferðar.
„Gabríel er 192 cm á hæð, með brún augu og um 85 kg að þyngd. Hann er klæddur í hvíta hettupeysu, gallabuxur og hvíta skó.
Þau sem geta gefið upplýsingar um ferðir Gabríels eða vita hvar hann er niðurkominn er vinsamlegast beðin um að hafa tafarlaust samband við lögreglu í síma 112,“ segir í færslu lögreglunnar á Facebook.
Þá var Gabríel hvattur til að gefa sig strax fram.