Embætti ríkislögreglustjóra harmar að lögreglan hafi í annað sinn haft afskipti af ungum manni í tengslum við leitina að Gabríel Douane Boama, sem slapp úr haldi lögreglu í fyrradag. Biður embættið fólk að fara varlega í tilkynningar, sem séu þó nauðsynlegar fyrir leitina.
„Við munum hitta foreldra drengsins aftur í dag og erum að skoða hvað er hægt að gera, þar á meðal fjarskiptamiðstöð, þar sem tilkynningar koma og þá hvort hægt sé að bera fyrr kennsl á rangar ábendingar,“ segir Gunnar Hörður Garðarsson, samskiptastjóri ríkislögreglustjóra. Drengurinn var ekki handtekinn að sögn Gunnars en vísar hann til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu varðandi málavöxtu.
Ekki liggur fyrir hvort sérsveit hafi verið send á vettvang í þetta skiptið. Spurður segir Gunnar að ávallt sé reynt að senda sérsveit á vettvang þegar um einstaklinga er að ræða sem eru mögulega vopnaðir.
Gunnar segir mikilvægt að fólk upplifi sig ekki óöruggt gagnvart lögreglunni, þótt leit sé í gangi að þekktum glæpamanni. „Við viljum ekki að hann upplifi sig óöruggan gagnvart lögreglu, það líst okkur ekki á. Að strákur sem hefur ekkert gert upplifi ógn af lögreglunni,“ segir hann.
„Við viljum biðja fólk að fara varlega í þessum efnum, að fólk sé ekki að tilkynna fólk einstaklinga til lögreglu án tilefnis,“ segir hann en hvetur fólk engu að síður til þess að vera vakandi og tilkynna þar sem leitað sé að hættulegum glæpamanni.
Móðir drengsins hefur gagnrýnt lögreglu harðlega fyrir hvernig staðið var að málum.
Móðir drengsins hefur farið fram á opinbera afsökunarbeiðni frá lögreglunni. Finnst þér að lögreglan ætti að biðjast afsökunar?
„Í tilkynningu í gær lýsti ríkislögreglustjóri því að þetta var leitt. En hann biðst ekki afsökunar á aðgerð sem sannarlega var nauðsynleg og við myndum ekki gera með öðrum hætti,“ segir hann.
Þótt hægt sé að hafa samskipti við fjarskiptadeild til þess að sía tilkynningar betur, verði að skoða betur hvort hægt sé að gera það með skilvirkum og gagnlegum hætti. „En við erum þegar komnir með nokkrar hugmyndir sem gætu virkað til þess að koma í veg fyrir að þessi strákur lendi aftur í þessu.“
Ríkislögreglustjóri átti fund með drengnum og móður hans í gær. „Og við ræðum við hana og kynnum í rauninni að þetta er erfitt fyrir unga drengi sem geta mögulega lent í því að einhver tilkynni þá. Það er raunveruleiki sem við sem samfélag og lögreglan þurfum að takast á við,“ segir Gunnar. Ríkislögreglustjóri mun aftur hafa samband við mæðginin vegna atviksins í dag.
Gunnar telur að það falli undir verksvið ríkislögreglustjóra að fræða samfélagið um fordóma en nú er einmitt slík herferð í gangi um kynferðisofbeldi. „Við höfum verið að keyra samfélagsverkefni, farið í heimsóknir í skóla og rætt við nemendur um samfélagsmál. Það er þannig sem ríkislögreglustjóri getur brugðist við samfélagsmeinum og það hjálpar lögreglunni sjálfri að læra,“ segir Gunnar.