Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segir í samtali við mbl.is að hann muni eiga samtal við ríkislögreglustjóra og óska eftir viðbrögðum lögreglu vegna afskipta hennar af unglingspilti sem hefur verið fjallað um í dag og í gær.
mbl.is ræddi við Jón í dag um mál strokufangans sem slapp úr gæsluvarðhaldi og afskipti lögreglu af sama unglingspiltinum, tvisvar á innan við sólarhring, við leit að fanganum.
Að sögn Jóns er það afar óheppilegt að svona lagað skuli eiga sér stað í þessari starfsemi lögreglu og að það sé mikilvægt að læra af þessu.
Spurður hvort dómsmálaráðuneytið hyggist beina einhverjum tilmælum til lögreglu varðandi verklag og framkvæmd leitarinnar sagðist Jón örugglega leita eftir upplýsingum frá lögreglu en ítrekar að hvorki ráðuneytið né ráðherra geti haft einhver afskipti af einstaka málum hjá lögreglunni.
Jón vísar þá til þess að það sé til staðar starfandi eftirlitsnefnd sem fylgist með störfum lögreglu sem taki á svona málum ef tilefni er til þess.
Jón segir þó að hann muni eiga samtal við ríkislögreglustjóra og yfirmenn lögreglunnar eftir helgina.
„Ég mun auðvitað eiga samtal við ríkislögreglustjóra og fara yfir þetta mál og kynna mér það þannig og óska eftir einhverjum viðbrögðum.“
Að sögn Jóns er það þó að öðru leyti lögreglan sem þurfi að svara fyrir þetta.
Tekur hann þá fram að það þurfi að sýna lögreglunni skilning.
„Menn þurfa að hafa það í huga að þetta eru erfiðar aðstæður sem lögreglan vinnur við og það þarf að sýna því skilning.“
Bendir Jón þá á að lögreglan sé að leita að eftirlýstum einstaklingi sem er talinn hættulegur umhverfi sínu.
„Aðstæður eru ekki einfaldar, þær eru flóknar og menn undir álagi hjá lögreglunni.“