Segja fjölmargar ábendingar hafa borist

Þessar myndir fylgja tilkynningu lögreglu.
Þessar myndir fylgja tilkynningu lögreglu.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýsir enn eftir Gabríel Douane Boama, 20 ára, en hann strauk úr Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrrakvöld þegar mál hans var þar til meðferðar.

Þetta ítrekar lögreglan í tilkynningu sem send var út rétt í þessu.

Tekið er fram að fjölmargar ábendingar hafi borist vegna leitarinnar að Gabríel, sem er talinn varasamur eins og fram hefur komið, og grennslast hafi verið fyrir um hann víða, en án árangurs til þessa.

Allt kapp lagt á að finna Gabríel

Allt kapp er sagt lagt á að finna Gabríel, en hann er jafnframt hvattur til að gefa sig strax fram. Vert er að nefna að það er refsivert að aðstoða brotamann við að losna undan handtöku eða refsingu.

Gabríel er 192 sm að hæð, með brún augu og um 85 kg að þyngd. Hann var klæddur í hvíta hettupeysu, gallabuxur og hvíta skó þegar hann strauk. Þau sem geta gefið upplýsingar um ferðir Gabríels eða vita hvar hann er niðurkominn eru vinsamlegast beðin um að hafa tafarlaust samband við lögreglu í síma 112.

„Að gefnu tilefni hvetur lögreglan til varkárni í samskiptum um þetta mál og önnur mál sem tengjast minnihlutahópum. Fordómar eiga aldrei rétt á sér. Leit að hættulegu fólki má ekki verða til þess að minnihlutahópar í okkar samfélagi upplifi óöryggi eða ótta. Að því sögðu er mikilvægt að lögregla fylgi ábendingum sem berast að gættu meðalhófi og virðingu fyrir öllum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert