Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segist hugsa til 16 ára unglingspiltsins og fjölskyldu hans, sem lögregla hafði í tvígang afskipti af við leit að strokufanganum Gabríel Douane Boama.
Afskipti voru höfð af piltinum, sem er dökkur á hörund líkt og Gabríel, í kjölfar ábendinga. Hann tengist málinu hins vegar ekki neitt. Jón segir málið ákaflega óheppilegt en biður á sama tíma um skilning gagnvart lögreglunni
„Við verðum að reyna að læra af þessu og bæta verkferla ef hægt er til að svona endurtaki sig ekki og ég mun eiga samtal við yfirmenn lögreglu að því tilefni,“ segir Jón samtali við mbl.is.
„Þetta er ákaflega leiðinlegt og það verður auðvitað að gera það sem hægt er til að forða því að þetta komi fyrir. Á sama tíma verð ég að segja að menn verða að hafa skilning á því að lögreglan var að starfa við mjög erfiðar aðstæður, að leita að mjög hættulegum manni. Það er jú verkefni lögreglunnar að gæta að öryggi borgaranna og svona hlutir geta gerst við erfiðar aðstæður. Ég bið líka um skilning á því gagnvart lögreglunni.“
Aðspurður hvort ekki þurfi líka að bæta einhverja verkferla varðandi flutning gæsluvarðhaldsfanga fyrst fanga tókst að flýja frá lögreglu með þessum hætti, segist Jón gera ráð fyrir að verkferlar verði skoðaðir. Gabríel flúði frá lögreglu þegar flytja átti hann úr Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem mál hans var til meðferðar.
„Ég mun eiga fund með yfirmönnum lögreglunnar til að fara yfir þessi mál. Að öðru leyti er ráðuneytið eða ráðherra ekki með bein afskipti af einstaka málum hjá lögreglunni. En síðan er þessi kærunefnd til sem tekur á móti og hefur eftirlit með störfum lögreglu, sem mál til ef ástæða þykir.“
Jón segist þó ekki gera sér grein fyrir því hvað þarf að bæta eða hvaða brotalamir hafi orðið til þess að manninum tókst að flýja úr haldi.