„Rauðhærðir og skeggjaðir lenda oft í þessu veseni“

Brynjar segir plebbalegt að tala um rasisma í þessu samhengi.
Brynjar segir plebbalegt að tala um rasisma í þessu samhengi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Brynjar Níels­son, fyrr­ver­andi þing­maður Sjálf­stæð­is­flokks­ins og aðstoð­ar­maður dóms­mála­ráð­herra, segir fólk þurfa að vera sérkennilega innréttað og jafnvel plebbalegt til að sjá rasisma í því að lögregla hafi í tvígang haft afskipti af 16 ára ungling vegna ábendinga um að þar gæti verið strokufanginn á ferð.

Þetta kemur fram í athugasemd á Facebook-síðu hans, en þar er hann spurður hvort allir brúnir menn og strákar þurfi að vera heima hjá sér þar til lögreglan hefur fundið Gabríel Douane Boama sem leitað hefur verið að.

Brynjar segir í athugasemdinni að lögreglan verði auðvitað að kanna ábendingar sem hún fær þegar leitað sé að eftirlýstum mönnum.

„Það er ekki nýtt að slíkar ábendingar reynist rangar og má segja að slíkt gerist í öllum svona málum. Rauðhærðir og skeggjaðir lenda oft í þessu veseni,“ segir Brynjar.

Gabríel fannst loks í morgun og var handtekinn. Hann hafði þá verið á flótta frá því á þriðjudag, þegar hann slapp úr gæsluvarðhaldi við Héraðsdóm Reykjavíkur. Við leit að honum síðustu daga hefur lögreglan í tvígang haft afskipti af 16 ára unglingspilti í kjölfar ábendinga.

Embætti ríkislögreglustjóra hefur harmað þessi afskipti og bað lögregla fólk að fara varlega í tilkynningar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert