Claudia Ashanie Wilson, lögmaður og móðir sextán ára pilts, sem lögregla og sérsveit höfðu afskipti af í tvígang í tengslum við leit að strokufanga í síðustu viku, segist miður sín yfir að saklaust barn hafi verið dregið inn í hættulegar aðstæður, eingöngu vegna húðlitar.
Í samtali við RÚV segist Claudia vona að lögreglan og samfélagið allt eigi eftir að draga lærdóm af málinu.
Lögregla hafði í tvígang afskipti af syni Claudiu við leit að strokufanganum Gabríel Douane Boama. Afskipti voru höfð af piltinum, sem er dökkur á hörund eins og Gabríel, í kjölfar ábendinga. Hann tengist málinu hins vegar ekki neitt. Sérsveit ríkislögreglustjóra hafði fyrst afskipti af honum í strætisvagni og aðeins degi síðar höfðu lögregluþjónar síðan í annað sinn afskipti af honum í bakaríi þar sem hann var staddur með móður sinni.
„Í stuttu máli var þetta algjör martröð. Saklaust barnið mitt var dregið inn í mjög hættulegar og ógnandi aðstæður, einkum vegna húðlitar. Ég hef kannski sagt þetta áður að það eru þrjú orð sem svört móðir vill aldrei heyra í sömu setningu og það er lögregla, byssur og barnið þitt,“ sagði móðir drengsins í kvöldfréttum.