Varðskipin liggi oftar við akkeri

Þór og Freyja eru til skiptis við eftirlitsstörf á Íslandsmiðum. …
Þór og Freyja eru til skiptis við eftirlitsstörf á Íslandsmiðum. Stórhækkaður olíukostnaður mun valda því að þau munu sigla minna, en úthaldsdagar verða hins vegar óbreyttir. mbl.is/Árni Sæberg

Gífurlegar olíuverðshækkanir og sú staðreynd að Landhelgisgæslan mun framvegis ekki kaupa olíu erlendis hefur veruleg áhrif á allan skiparekstur stofnunarinnar. Þetta kemur fram í skriflegu svari Ásgeirs Erlendssonar upplýsingafulltrúa við fyrirspurn Morgunblaðsins.

Aukinn kostnaður við olíutöku varðskipanna leiði til þess að draga verður úr siglingum. Leitað verði leiða til að halda úthaldsdögum jafn mörgum en draga úr olíunotkun með því að sigla skipunum minna.

„Slíkt leiðir óhjákvæmilega til minna eftirlits og skyndiskoðana á hafsvæðinu umhverfis Ísland þar sem skipin verða oftar bundin við bryggju eða við akkeri til að mæta þessum kostnaðarauka. Úthaldsdagarnir og viðbragðsgetan verður sú sama þrátt fyrir að minna verði siglt,“ segir Ásgeir.

Ríkisendurskoðun komst að þeirri niðurstöðu í skýrslu, sem birt var fyrr á árinu að Landhelgisgæslan ætti að hætta kaupum á olíu í Færeyjum. Í framhaldinu tóku stjórnendur stofnunarinnar þá ákvörðun að í flestum tilfellum yrði olía keypt á Íslandi héðan í frá.

Frá aldamótum hafa varðskip Landhelgisgæslunnar tekið olíu í Færeyjum þegar þau hafa verið við eftirlitsstörf djúpt austur af landinu eða við æfingar með dönsku varðskipunum. Innkaupsverð olíu er mun lægra í Færeyjum en á Íslandi enda þarf ekki að greiða virðisaukaskatt af eldsneytinu í Færeyjum þar sem þetta er útflutningur á olíu þar. Með því að kaupa eldsneyti í Færeyjum hafa umtalsverðir fjármunir sparast sem nýst hafa til að fjölga úthaldsdögum varðskipanna og sinna öðrum lögbundnum hlutverkum.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út laugardaginn 30. apríl. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert