Enn vantar herslumuninn í fjársöfnun

Tölvugerð mynd sýnir nýja Miðgarðakirkju eins og hún mun líta …
Tölvugerð mynd sýnir nýja Miðgarðakirkju eins og hún mun líta út. Verklegar framkvæmdir geta hugsanlega hafist eftir næstu viku.

„Við erum vel á veg komin en enn vantar herslumuninn,“ segir Arna Björg Bjarnadóttir, verkefnisstjóri við byggingu nýrrar Miðgarðakirkju í Grímsey, um söfnun fjár til kirkjubyggingarinnar. Nýja kirkjan kemur í stað kirkjunnar sem brann til kaldra kola síðastliðið haust.

Miðgarðakirkja brann til grunna að kvöldi 21. september á síðasta ári, ásamt öllum munum hennar. Grímseyingar voru strax staðráðnir í að byggja nýja kirkju. Strax söfnuðust nokkrir fjármunir til verksins og síðan hefur verið unnið að fjáröflun fyrir þetta mikla verkefni fámenns samfélags.

Haldnir voru styrktartónleikar í Akureyrarkirkju í síðustu viku með heitinu Sól rís í Grímsey. Allir listamenn og aðrir sem unnu að tónleikunum og undirbúningi þeirra gáfu vinnu sína og segir Arna að nokkrir fjármunir hafi safnast. Jafnframt hafi einstaklingar, félagasamtök og fyrirtæki lagt fjármuni inn á söfnunarreikninginn í tengslum við þá umfjöllun sem tónleikarnir fengu. Hún segir að ekki sé búið að taka saman hvað safnaðist í apríl en segir að þótt söfnunin gangi vel vanti enn upp á að tekist hafi að fjármagna bygginguna að fullu.

Hægt að fylgjast með söfnun

Hægt er að finna upplýsingar um söfnunina inn á grimsey.is/kirkja og þar á jafnframt að vera hægt, í dag eða næstu daga, að fylgjast með hversu langt fjármögnunin er komin á hverjum tíma.

Undir lok síðasta árs var samið við smíðaverkstæðið Loftkastalann um smíði nýrrar kirkju. Er unnið að því að forvinna einingar sem settar verða saman á staðnum síðar á þessu ári.

Arna segir að næstkomandi mánudag muni fornleifafræðingar gera athuganir á kirkjustæðinu til að ganga úr skugga um hvort þar sé einhverjar fornleifar að finna. Ef svo reynist ekki vera verði hafist handa við að grafa fyrir grunni kirkjunnar og framkvæmdir hefjist af fullum krafti. Markmiðið sé að kirkjan verði risin 21. september en þá verður ár liðið frá brunanum. Veturinn verði síðan notaður til að innrétta og skreyta húsið þannig að hægt verði að vígja kirkjuna á næsta ári.

Hún viðurkennir að ef fornminjar finnist á kirkjureitnum sem þurfi að rannsaka nánar kunni það að raska tímaáætlunum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert