Benslaði rafskútur í mótmælaskyni

Maður sem grunaður var um að hafa stundað stórfelld skemmdarverk …
Maður sem grunaður var um að hafa stundað stórfelld skemmdarverk á rafskútum hefur gefið sig fram og viðurkennt verknaðinn. Ljósmynd/Hopp

Maður sem grunaður var um að hafa stundað stórfelld skemmdarverk á rafskútum Hopp Reykjavík og þannig stefnt notendum þeirra í hættu hefur gefið sig fram við fyrirtækið og viðurkennt verknaðinn.

Þetta staðfestir Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Hopp Reykjavík, í samtali við mbl.is.

Benslaði handbremsur rafskútanna fastar

Hún segir starfsmenn fyrirtækisins hafa tekið eftir því að einhver hafi verið að eiga við rafskúturnar og bensla handbremsurnar á þeim fastar.

„Í gær fengum við svo sendar myndir af viðkomandi að fremja verknaðinn og í sakleysi mínu birti ég myndirnar á einni stórri Facebook-síðu þar sem ég sagðist vilja fá að hitta viðkomandi.“

Á myndunum var viðkomandi á hjóli og gaf Sæunn sér það að hann væri að bensla handbremsurnar á rafskútunum í mótmælaskyni.

„Þar sem að við deilum hjólastígunum og erum væntanlega sama sinnis um að vilja fjölbreyttar samgöngur í borginni þá hugsaði ég að það væri árangursríkast að bara hittast, spjalla saman og athuga hvort við gætum ekki gert betur og hann þ.a.l. hætt að bensla skúturnar.“

Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Hopp Reykjavík.
Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Hopp Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vildi vekja athygli á rafskútum sem var illa lagt

Maðurinn umræddi, sem starfsmenn Hopp Reykjavík gáfu viðurnefnið Bensl-Geir, sendi svo fyrirtækinu tölvupóst í gærkvöldi og samþykkti að funda með starfsmönnum þess í morgun, að sögn Sæunnar.

„Auðvitað baðst hann afsökunar og sagðist aldrei hafa haft í hyggju að stefna notendum rafskútanna í hættu. Hann skemmdi aldrei neinar skútur eða neitt heldur var hann einfaldlega bara að mótmæla því hvað skútunum er oft illa lagt á hjólastígum.“

Sæunn segir starfsmenn Hopp Reykjavík ekki geta verið meira sammála Bensl-Geira enda séu þeir stöðugt að reyna að ná til notenda rafskútanna hvað þetta varðar.

„Ég held það sé bara mjög mikilvægt að við nýtum þetta tækifæri og snúum þessu upp í jákvæða umfjöllun um að notendur rafskútanna okkar verði að hugsa sig tvisvar um áður en þeir skilja skúturnar eftir þar sem þær geta valdið slysum.

Rafskúturnar okkar eru notaðar svo mikið og þær eru svo gríðarlega mikilvægur ferðamáti að notendur þeirra geta varla viljað að við setjum meiri hömlur á notkunina, sektir eða verið með einhver leiðindi því fólk getur ekki lagt skútunum í útjaðri göngustígs.“

Hún segir Hopp Reykjavík leggja mikla vinnu í að halda hjólastígum í borginni auðum með því að vakta þá allan sólarhringinn og færa allar þær rafskútur sem ekki hefur verið lagt rétt, óháð því hvort þær séu frá Hopp eða ekki.

Starfsmenn Hopp Reykjavík eru í fullri vinnu við að færa …
Starfsmenn Hopp Reykjavík eru í fullri vinnu við að færa rafskútur sem hefur verið illa lagt í borginni. mbl.is/Óskar

„Okkur er mjög annt um öryggi borgarbúa“

Lofaði viðkomandi að hætta að bensla bremsurnar á hjólunum?

„Við erum bara búin að takast í hendur og hann er rosa sáttur við að við skyldum hafa hist. Hann var mjög almennilegur og feginn að hafa náð til okkar. Við drukkum saman kaffi í klukkutíma og ræddum samgöngur, betri borg og allskonar leiðir að því hvernig við getum náð til okkar notenda sem skilja skúturnar svona eftir því okkur er mjög annt um öryggi borgarbúa, notenda okkar og bara allra.“

Spurð segist Sæunn sjá eftir því að hafa birt mynd af viðkomandi á Facebook en sú ákvörðun hafi að minnsta kosti orðið til þess að málið leystist á farsælan hátt.

„Við náðum að minnsta kosti saman. Ég var svo innilega viss um að þetta væru krakkar sem væru að þessu og bjóst kannski ekki alveg við því að þetta væri maður á besta aldri. Ég hef ekki í hyggju að gera eitthvað sem er rangt en þetta skilaði bara jákvæðum árangri.“

Þá segist hún vera búin að fjarlægja umræddar myndir af Facebook og að hún hafi ekkert illt um Bensl-Geir að segja.

„Hann er bara algerlega frábær og er annt um hjólastígana líkt og okkur. Svo við erum bara algerlega sammála. Við viljum að notendur okkar leggi rafskútunum betur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert