Gói bæjarlistamaður Kópavogs 2022

Páll Marís, Gói, Ármann Kr. Ólafsson og Soffía Karlsdóttir við …
Páll Marís, Gói, Ármann Kr. Ólafsson og Soffía Karlsdóttir við athöfnina í dag. Ljósmynd/Aðsend

Leikarinn Guðjón Davíð Karlsson, betur þekktur sem Gói, er Bæjarlistamaður Kópavogs 2022. Valið var tilkynnt í Gerðarsafni í dag, fimmtudaginn 19. maí.  Soffía Karlsdóttir forstöðumaður menningarmála í Kópavogi bauð gesti velkomna og Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs kynnti tilnefningu bæjarlistamanns. Páll Marís Pálsson varaformaður lista- og menningarráðs færði Guðjóni svo viðurkenningarskjal og blómvönd.

„Við hjá Kópavogsbæ erum afar stolt af vali á bæjarlistamanni Kópavogs 2022, listamanninum, Guðjón Davíð Karlssyni, sem er vel að titlinum kominn. Hann er ekki einungis einn af eftirlætis leikurum þjóðarinnar heldur hefur hann skipað sér sess sem handritshöfundur fyrir leikhús og sjónvarp og leikstýrt með eftirminnilegum hætti leikritum og sjónvarpsþáttum. Hann hefur verið fastráðinn við stærstu leikhús þjóðarinnar, heillaði ungmenni landsins þegar hann sá um Stundina okkar og mun nú deila hæfileikum sínum með Kópavogsbúum á komandi mánuðum. Við hlökkum innilega til samstarfsins með Guðjóni Davíð næsta árið,“ sagði Soffía Karlsdóttir forstöðumaður menningarmála í Kópavogi um valið á bæjarlistamanni 2022.

Bæjarlistamaður Kópavogs skal vera tilbúinn til að vinna með Kópavogsbæ að því að efla áhuga á list og listsköpun í bænum og taka þátt í viðburðum bæjarins með það að leiðarljósi. Styrkupphæð bæjarlistamanns er 1,5 milljónir króna. Gói tekur við keflinu af Sunnu Gunnlaugsdóttur tónlistarmanni. 

Guðjón Davíð er fæddur 1980 í Reykjavík en er stoltur Kópavogsbúi í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert