„Hvers vegna hundrað leyfi?“

Formaður Frama segir fjölgun atvinnuleyfa fyrir leigubílstjóra breyta litlu.
Formaður Frama segir fjölgun atvinnuleyfa fyrir leigubílstjóra breyta litlu. mbl.is/Unnur Karen

„Hvers vegna hundrað leyfi? Hvert er viðmiðið? Það er ekki hægt að leggja raunhæft mat á framboð og eftirspurn vegna þess að það er svo mikill svartur akstur,“ segir Daníel O. Einarsson, formaður Frama, félags leigubílsstjóra. Á hann þar við skutlara sem taka að sér að keyra fólk gegn greiðslu.

Innviðaráðherra fjölgaði atvinnuleyfum leigubifreiða um hundrað á höfuðborgarsvæðinu nýverið. Daníel segir fjölgun atvinnuleyfa ekki leysa neitt, fjölga þurfi leigubílsstjórum. „Lausnin væri að hafa strangara eftirlit og hamla svartan akstur,“ segir hann.

Telur farveitur ekki leysa málið

En að fara í hina áttina og einfalda regluverkið, til dæmis heimila farveitur á borð við Uber? 

„Já en þá heldur áfram að vanta leigubíla. Það er það sem gerist. Þessir aðilar eru búnir að vera að taka af okkur á markaðnum, þess vegna fækkar okkur hratt,“ segir hann og kveðst ekki hlynntur farveitunum. Telur hann einnig að slíkt hafi slæm áhrif á launakjör.

Fjöldi helltist úr stéttinni á meðan á faraldrinum stóð og skemmtanalífið stóð sem lægst. 

„Vandinn snýst ekki um fjölda leyfa heldur að fá bílstjórana til að keyra. Það hefur verið samdráttur eftir Covid, eins og alls staðar. Vegna þess að fólk getur ekki lifað af laununum sínum, þá fer það í aðra vinnu,“ segir hann. Frami hafi átt að fá fund með félagsmálaráðuneytinu en ekkert hafi orðið úr því. 

„Það er bara stríð á götunni“

Hefur leigubílstjórum fjölgað aftur?

„Já fólk kemur aftur en ef þessi svarti akstur á að halda áfram, þá verður það ekki. Ólögmæt samkeppni er óviðunandi, það er bara stríð á götunni. Leigubílaakstur er lögvernduð starfsgrein og þarf að vera það til að halda úti þessari þjónustu,“ segir hann. 

Innviðaráðherra mælti í mars fyrir frumvarpi um leigubifreiðaakstur sem afléttir takmörkun á fjölda leyfa en sömu kröfur eru gerðar til allra bílstjóra, m.a. meirapróf og að hafa lokið námskeiðum um leigubifreiðaakstur. Ekki er auðséð að frumvarpið geri erlendum farveitum kleift að festa sig í sessi á íslenskum markaði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert