Karlotta Líf Sumarliðadóttir
Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri og stofnandi Niceair, segir í samtali við mbl.is að flugið til Akureyrar í dag hafi gengið „skínandi vel“.
Airbus 319-vél Niceair lenti á Akureyrarflugvelli laust fyrir klukkan tvö í dag en vélin var að koma frá Lissabon í Portúgal.
„Þetta var frábært flug og allt gekk vel í alla staði,“ segir hann.
Niceair mun fljúga frá Akureyri til Kaupmannahafnar, London og Tenerife fyrst um sinn.
„Við í félaginu erum mjög bjartsýn fyrir sumrinu, það hefur gengið vel að selja miða og greinilegt að fólk er ferðaþyrst,“ segir Þorvaldur.
„Næstu flug framundan eru meira og minna fullbókuð og svo sjáum við bara hvernig þetta verður. Við finnum að Íslendingar eru ferðaþyrstir og þetta er svolítið í takt við væntingar hjá okkur.“
Bætir Þorvaldur við að það séu mikil tímamót að hefja reglubundið áætlunarflug um Akureyrarflugvöll.
„Við erum auðvitað afskaplega spennt,“ segir hann að lokum.