Tómas Arnar Þorláksson
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra segir í samtali við mbl.is að samkvæmt frumvarpi hans til breytinga á lögum um leigubifreiðir sé farveitunum Uber og Lyft gert mögulegt að bjóða upp á þjónustu sína hér á landi, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
Spurður hvort útgáfa hundrað nýrra atvinnuleyfa fyrir leigubifreiðaakstur útiloki möguleikann á því að farveiturnar Uber og Lyft geti hafið starfsemi hér á landi segir Sigurður að leyfin hundrað hafi verið gefin út í samræmi við núgildandi lög og hafi verið ráðstöfun til að svara mikilli þörf fyrir leigubíla á höfuðborgarsvæðinu.
Bendir Sigurður á að núna sé hann búinn að leggja fram frumvarp fyrir þingið um breytingar á lögum um leigubifreiðar. Bætir hann við að í frumvarpinu séu tillögur um breytingar á núverandi fyrirkomulagi og vísar þar til útgáfu leyfa til leigubifreiðaraksturs.
„Ég hef sagt það áður að frumvarpið er ekki lagt fram til þess að Uber eða Lyft geti komið til landsins en samkvæmt frumvarpinu geta farveiturnar þó komið til landsins ef þær uppfylla sömu skilyrði og leigubílarnir.“
Aðspurður segir Sigurður að skilyrðin varði atvinnuleyfi, rekstrarleyfi og nokkra aðra þætti sem Sigurður útlistar ekki nánar.
„Ef þær uppfylla sömu skilyrði og aðrir þá eru þær velkomnar, það er engum bannað að koma,“ segir Sigurður og vísar til Uber og Lyft.