Flugferðir Niceair frá Akureyri til Lundúna og Manchester voru teknar úr sölu á vef flugfélagsins tímabundið í dag.
Þetta er gert eftir að farþegar Niceair til Íslands frá Lundúnum komust ekki beint til Akureyrar með vél félagsins á föstudaginn vegna þess að Niceair fékk ekki tiltekið á Stansted-flugvellinum í Lundúnum. Farþegunum var í staðinn flogið til Keflavíkur með öðru flugfélagi í boði Niceair þar sem vél félagsins beið eftir þeim og flaug þeim til Akureyrar.
Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdarstjóri Niceair, segir ákvörðunina um að taka flugferðirnar til Lundúna og Manchester úr sölu vera öryggisráðstöfun á meðan félagið leysir úr vandamálunum sem mættu þeim á föstudaginn. „Mér fannst það rétt í stöðunni á meðan við klárum varanlega lausn á þessu máli. Ég tók flugin úr sölu þangað til að við höfum undirritað varanlega lausn,“ segir Þorvaldur.
Að sögn Þorvalds kom vandamálið þeim mjög á óvart og var erfitt að komast að því hvað væri raunverulega vandamálið vegna manneklu í Bretlandi og drottningarafmælisins þar í landi. Margt annað spilaði einnig inn í málið. Segir hann það núna komið í ljós hvar vandinn liggur og að vandamálið ætti að leysast um miðja næstu viku.
Hann segir það tengjast Brexit. „Þetta felst í heimildum á milli ríkja og ólíkra samninga á milli Evrópu og Íslands og Íslands og Bretlands. Vandamálið fólst í því hvernig þessir samningar virka saman,“ segir Þorvaldur.
Að sögn Þorvaldar var aðeins um lítilsháttar fjárhagslegt tjón að ræða vegna vandamálanna á föstudaginn. „Mér fannst verst þessi röskun á högum farþega og við bættum þeim það upp,“ segir Þorvaldur og kannast ekki við að neinn hafi farið ósáttur heim.
Bendir hann á að Niceair fljúgi til Stansted í Lundúnum á morgun með þó nokkra farþega og sæki enn fleiri heim. Aðspurður segir hann vélina sem fari til Lundúna á morgun ekki koma tóma heim. Þá segir hann að flugferðirnar fari aftur í sölu á vefnum, líklega á miðvikudag eða fimmtudag.
Býst Þorvaldur við að komin verði varanleg lausn á þessu vandamáli fyrir flug félagsins til Bretlands á föstudaginn. Bætir hann við að allar aðrar flugferðir en fyrsta flugið til Lundúna hafi gengið glimrandi vel.