Löglærður fulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu skoðar nú hvort tilboð Sambands ungra Sjálfstæðismanna um frítt skutl í kvöld standist lög.
„Þetta er hjá fulltrúa hjá okkur. Við viljum hafa það á hreinu hvort þetta sé allt í góðu lagi eða ekki,“ segir Elín Agnes Kristínardóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögregluni á höfuðborgarsvæðinu um málið.
Lögreglan ætlar að reyna að komast að niðurstöðu um málið í kvöld en hefur ekki rætt við Samband ungra Sjálfstæðismanna vegna málsins.
„Við erum bara að skoða þetta innanhúss,“ segir Elín Agnes í samtali við mbl.is.
RÚV greindi fyrst frá því að málið væri á borði lögreglu.
Eins og mbl.is greindi frá fyrr í kvöld mun Samband ungra sjálfstæðismanna (SUS) bjóða miðbæjargestum upp á skutl endurgjaldslaust í kvöld. Þó verður tekið við frjálsum framlögum og mun ágóðinn renna í túlkþjónustu til að auka aðgengi erlendra aðila að leigubifreiðamarkaðinum.
Í tilkynningu frá SUS segir að skapast hafi neyðarástand á leigubílamarkaði á Íslandi og að stórt gat þurfi að fylla. Stjórnvöld boði algjörar lágmarksaðgerðir. Skorar sambandið á ráðherra að svara kallinu og færa löggjöfina á 21. öldina.