Lögregla hafði ekki afskipti af skutli SUS

Tilboð SUS um frítt skutl kom ekki til kasta lögreglu.
Tilboð SUS um frítt skutl kom ekki til kasta lögreglu. mbl.is/Ari

Tilboð Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS) um frítt skutl í gærkvöld kom ekki inn á borð hjá lögreglu. Þetta staðfestir Elín Agnes Kristínardóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Eins og mbl.is greindi frá í gær bauð SUS miðbæjargestum upp á skutl endurgjaldslaust í gærkvöldi til klukkan eitt í nótt. Í tilkynningu sambandsins til fjölmiðla kom fram að tekið yrði á móti frjálsum framlögum í skutlinu og átti sá ágóði að renna í túlkþjón­ustu til að auka aðgengi er­lendra aðila að leigu­bif­reiðamarkaðinum.

Tilboðið þótti á gráu svæði enda ólöglegt að taka við greiðslu gegn skutli nema með tilskilin leyfi og réttindi. Var það því til skoðunar hjá löglærðum fulltrúa hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gær.

„Ef þetta hefði komið til okkar kasta hefðum við tekið það til skoðunar og þá spurning hvort það hefði verið að bjóða einhverjum far eða hvort verið er að taka gjald fyrir þjónustu. Þannig að það var svona það sem við vorum að skoða. En þetta mál kom ekki til okkar kasta,“ segir Elín í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert