Leigubílaskortur auki hættu á ölvunarakstri

Helgi segir aðstæður, á borð við skort á leigubílum og …
Helgi segir aðstæður, á borð við skort á leigubílum og almenningssamgöngum í kringum skemmtanalífið áhættuþátt þegar kemur að akstri undir áhrifum áfengis mbl.is/Ari

Tíðni þeirra sem teknir eru fyrir ölvunarakstur fjölgaði mikið í maí, bæði þegar litið er til síðustu sex mánaða og þegar litið er til eins árs. Þetta segir í nýrri afbrotatölfræði í mánaðarskýrslu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir maí.

Helgi Gunnlaugsson, afbrotafræðingur og prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, segir aðstæður, á borð við skort á leigubílum og almenningssamgöngum í kringum skemmtanalífið áhættuþátt þegar kemur að akstri undir áhrifum áfengis. Rannsóknir hér á landi og erlendis frá renni stoðum undir það.

„Þetta eru oft skýringar sem menn grípa til. Aðstæðurnar voru kannski þannig að það var ekki hægt að fá neitt annað ökutæki eða annan til þess að keyra, leigubíl eða strætó. Ef samgöngur eru erfiðar eða ekki fyrir hendi er freistingin mikil að aka undir áhrifum,“ segir Helgi í samtali við mbl.is.

Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur og prófessor í félagsfræði við HÍ.
Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur og prófessor í félagsfræði við HÍ. mbl.is/Árni Sæberg

Næturstrætó, framboð og eftirlit

Helgi segir að á sama hátt geti aukið framboð leigubíla og almenningssamgöngur á borð við næturstrætó dregið úr ölvunarakstri.

„Rannsóknir erlendis og okkar hér á landi sýna að aðstæður hafa mikið að gera með vímuefnaakstur. Ef almenningssamgöngur eða nægt framboð leigubíla er fyrir hendi dregur það úr ölvunarakstri.“

Þá skipti eftirlit lögreglu einnig skipta máli. „En við vitum samt að dómgreind fólks minnkar með aukinni vímuefnaneyslu. Þess vegna skiptir auðvelt aðgengi að samgöngum lykilmáli þegar kemur að mannsöfnuði í skemmtanalífinu.“

Þar spili opnunartímar skemmtistaða inn til að draga úr álagstoppum.

„Það er mikilvægt að þeir séu sveigjanlegir en loki ekki allir á sama tíma, þegar haldið er heimleiðis eftir skrall næturinnar.“

Röð eftir leigubíl í miðbænum um helgi.
Röð eftir leigubíl í miðbænum um helgi. mbl.is/Ari

Hátt hlutfall ekið undir áhrifum

Helgi bendir á að þrátt fyrir að ölvunarakstur sé oft samkvæmt rannsóknum afbrotafræðinnar tengd við áfengis- og vímuefnavanda þá sýni íslenskar mælingar fram á að hátt hlutfall borgaranna hafi einhvern tímann ekið undir áhrifum áfengis.

„Og þeir eru ekkert endilega með áfengisvanda eða afbrotasögu. Þetta eru oft bara löghlýðnir venjulegir borgarar, að öðru leyti, sem hafa tekið ranga ákvörðun.“

Þeir sem eru á hinn bóginn ítrekað teknir fyrir ölvunarakstur séu þó oftar en ekki með vímuefna- og áfengisvanda, og/eða sögu um slík brot.

„En þegar við skoðum tilfallandi dæmi er mynstrið miklu breiðara.“

Mikill mannsöfnuður getur myndast þegar fleiri skemmtistaðir loka á sama …
Mikill mannsöfnuður getur myndast þegar fleiri skemmtistaðir loka á sama tíma. mbl.is/Ari

Tíð slys á rafskútum undir áhrifum

Guðbrandur Sigurðarson, aðstoðaryfirlögregluþjónn umferðardeildar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kvaðst ekki geta staðfest að fjölgun á skráðum ölvunarakstursbrotum í maí væri af einhverjum sérstökum á en útilokaði ekki að skortur á leigubílum gæti spilað inn sem áhrifaþáttur.

Honum þyki líklegra að fjölgun af þessu tagi sem þessi stafi af meiri tíma lögreglu til eftirlits og afskipta.

Þá sagði hann slys á rafmagnshlaupahjólum, svokölluðum rafskútum, væri að færast í aukana.

„Allt of oft kemur þar inn ölvun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert