Þýðingarmikið skref í skaðaminnkun

Hafrún Elísa Sigurðardóttir, verkefnastýra Frú Ragnheiðar.
Hafrún Elísa Sigurðardóttir, verkefnastýra Frú Ragnheiðar.

Hafrún Elísa Sigurðardóttir, verkefnastýra Frú Ragnheiðar, segir að aukið aðgengi að Naloxone í nefúðaformi sé gríðarlega þýðingarmikið skref í skaðaminnkun hérlendis.

Heilbrigðisráðuneytið í samvinnu við Landspítalann tilkynnti á dögunum að aðgengi að lyfinu verði aukið um allt land, notendum að kostnaðarlausu.

Lítið aðgengi að lyfinu

Lyfið er notað þegar þörf er á neyðarmeðferð vegna ofneyslu ópíóða sem getur valdið öndunarstoppi og dauða. Skjólstæðingar Frú Ragnheiðar tilheyra jaðarsettum hóp en um er að ræða fólk sem er ýmist er heimilislaust, með fjölþættan vímuefnavanda eða hvort tveggja.

„Það hefur verið lítið aðgengi að lyfinu og við í Frú Ragnheiði og Ylju höfum síðustu mánuði verið að dreifa því til notenda. Það hefur gengið mjög vel og mikið af nefúðum sem eru farnir út,“ segir Hafrún og bætir því að fyrstu sendingarnar af lyfinu hafi borist Frú Ragnheiði í febrúar en þær hafi verið fjármagnaðar af einkaaðilum.

Naloxone-nefúði.
Naloxone-nefúði. mbl.is/Valgarður Gíslason

„Núna er þetta að koma frá því opinbera, þá er betra aðgengi fyrir okkur og sveitarfélögin til þess að nálgast það, og auðvitað notendur sem er aðal atriðið.“

Hafrún segir að starfsfólk Frú Ragnheiðar hafi þegar heyrt af fimm tilvikum þar sem nefúðinn frá þeim hafi verið notaður.

Allir sem nota ópíóða ættu að eiga lyfið

Naloxone-nefúðinn er vel pakkaður inn í sérstaka tösku fyrir heimilislausa. Skjólstæðingar Frú Ragnheiðar einfaldlega óska eftir úðanum og þau koma úðanum til hans. „Svo fá þau stutta fræðslu um hvernig úðinn virkar og bækling sem þau fara í gegnum með okkur.“

Hafrún tekur fram að allir einstaklingar sem taka ópíóða, hvort sem þeir séu jaðarsettir eða ekki, eigi að eiga lyfið ef eitthvað skyldi koma upp.

„Ég myndi segja að á öllum heimilum þar sem eru ópíóðar ætti að vera til Naloxone. Því maður veit aldrei hvað getur gerst,“ segir Hafrún.

Naloxone er hvorki ávanabindandi né hættulegt. Eina notkun þess er tafarlaus neyðarmeðferð vegna ofskömmtun ópíóða, en mikilvægt er að koma einstaklingi undir læknishendur eftir notkun lyfsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert