Netþrjótar herja á fólk í nafni Skattsins

Maður leitaði til Skattsins eftir að honum barst einkennilegur netpóstur …
Maður leitaði til Skattsins eftir að honum barst einkennilegur netpóstur frá stofnuninni. Samsett mynd

Skattinum berast enn tilkynningar um netþrjóta sem herja á fólk í nafni stofnunarinnar með það markmið að plata af þeim peninga. Á dögunum barst manni bréf sem virtist trúverðugt við fyrstu sýn, en bar öll einkenni netsviks. 

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Skattsins. 

Fólk beðið um að sýna aðgát

Í tilkynningunni er fólk beðið um að sýna aðgát og kynna sér helstu einkenni netsvika. Þá er fólki bent á að gefa ekki upp fjárhagsupplýsingar eða láta af fé ef einhverjar vafasemdir vakna um bréfin. 

Hér má sjá bréfið.
Hér má sjá bréfið. Ljósmynd/Skatturinn

Skatturinn tekur það fram að oftar en ekki beri netsvik í tölvupósti með sér sömu einkenni: málvillur og einkennilegt málfar, óvænt tilkynning um skuld eða inneign, skuld eða greiðsla sem ekki er greidd eftir hefðbundnum leiðum og að óskað sé eftir kortanúmeri eða öðrum fjárhagsupplýsingum strax. 

Svindl eru þó oft sannfærandi, en einkenni og trúverðugleiki þekktra fyrirtækja og stofnana eru oft notuð til að blekkja.

„Gott ráð er að smella aldrei á hlekki í tölvupóstum sem berast, hvort sem grunur um netsvik er til staðar eða ekki. Betra er að opna nýjan vafraglugga og finna vefsíðu stofnunarinnar eða fyrirtækisins upp á eigin spýtur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert