Hafi tekið allt að klukkutíma stöðva flæðið

Ljósmynd/Aðsend

Ekki liggur fyrir hvað olli því að kalda­vatns­lögn fór í sund­ur með þeim afleiðingum að vatnselgur myndaðist í Hvassa­leit­inu í Reykja­vík í gær. Vitað er um tvö fjölbýlishús og bílskúralengju í hverfinu sem flæddi inn í.

„Orsakir fyrir þessu eru enn óljósar á þessum tímapunkti. Vinna okkar í nótt fór í að tryggja vettvanginn. Koma vatni niður, dæla og hreinsa. Núna er að hefjast vinna við að greina orsakirnar og leggja mat á umfang afleiðinganna,“ segir Jón Trausti Kárason, forstöðumaður vatns- og fráveitu hjá Veitum, í samtali við mbl.is.

Stofnlögnin sem gaf sig er frá árinu 1962. Hún liggur á milli Miklubrautar og Hvassaleitis.

Jón Trausti Kárason, forstöðumaður vatns- og fráveitu hjá Veitum.
Jón Trausti Kárason, forstöðumaður vatns- og fráveitu hjá Veitum. Ljósmynd/Gunnhildur Hansdóttir

Leggja mat á tjónið

Veitur fengu ábendingar frá íbúum hverfisins um vatnselginn í gærkvöldi en sömuleiðis tóku starfsmenn Veitna eftir rofinu í stjórnstöð fyrirtækisins. Að sögn Jóns Trausta er hún í stöðugri vöktun.

Ekki liggur nákvæmlega fyrir hversu langan tíma það tók Veitur og viðbragðaðila að stöðva vatnstrauminn en að sögn Jóns Trausta tók aðgerðin líklega 45 til 60 mínútur.

„Það er eitt af því sem við erum að reyna átta okkur á núna. Hvenær þetta gerist og hversu langur tími líður frá því að það verður vart við þetta og þangað til að við erum komin með stjórn á aðstæðum,“ segir Jón Trausti, en fimm starfsmenn Veitna mættu á vettvang í gærkvöldi. 

Segir hann að ásamt því að greina orsakirnar og tímalínuna verði haft samband við tryggingafélag fyrirtækisins og lagt mat á tjónið.

Vatn flæddi inn í kjallara og bílskúra.
Vatn flæddi inn í kjallara og bílskúra. Ljósmynd/Aðsend

Ekki sambærilegt HÍ-lekanum

Spurður hvort málið sé svipað því sem gerðist í Háskóla Íslands í janúar í fyrra segir Jón Trausti:

„Nei, ekki nema bara að því leyti að það verður tjón vegna vatns og rofs á lögn. Það sem er ólíkt með þessum tveimur málum er það að í háskólamálinu var það tengt framkvæmdum á okkar vegum en það er ekki raunin í þessu tilvik. Þetta eru einhverjar aðrar orsakir sem að liggja að baki því að svona fer.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert