Ekkert tjón varð í verslunarmiðstöðinni Kringlunni í gær þegar að vatn flæddi stríðum straumum um götur í Hvassaleitinu eftir að 80 sentímetra kaldavatnslögn með þrýstingi á fór í sundur. Þetta staðfesti Sigurjón Örn Þórsson, framkvæmdastjóri verslunarmiðstöðvarinnar.
Varðstjóri slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu staðfesti í morgun við mbl.is að vatn hefði flætt inn í hús í nágrenninu, kjallara, bílskúra og bíla. Tveir dælubílar voru sendir til að sinna verkefninu og um miðnætti tóku Veitur við á vettvangi.
Að sögn Sigurjóns Arnar náði straumurinn ekki þeirri vatnshæð að vatn skyldi flæða inn.
„Við sluppum fyrir horn. Við erum alsæl með það en finnum til með þeim sem verða fyrir tjóni,“ segir Sigurjón Örn í samtali við mbl.is.
„Öryggisgæslan fylgist vel með öllu innan og utandyra svo við erum vel vöktuð,“ bætti hann við.