„Þetta er bara alveg ömurlegt“

Vatnshæðin náði 60 til 70 sentímetrum að sögn Björns.
Vatnshæðin náði 60 til 70 sentímetrum að sögn Björns. Ljósmynd/Björn Stefánsson

„Þetta er bara alveg ömurlegt,“ sagði Björn Stefánsson, íbúi í Hvassaleiti, þar sem hann stóð í kjallaranum og lýsti ástandinu fyrir blaðamanni. 

Kaldavatnslögn við Hvassaleitið gaf sig í gær og flæddi vatn í stríðum straumum um hverfið og fór það meðal annars inn í kjallara á tveimur fjölbýlishúsum. Þar voru m.a. geymslur og sameiginlegt þvottahús.

Unnið er nú hörðum höndum að því að tæma vatnið og þurrka geymslurnar. Fulltrúar Vís, tryggingafélags Veitna, komu á vettvang í nótt til að ræða við íbúa og upplýsa þá um næstu skref. 

Hurðin gaf sig undan þrýstingi

Að sögn Björns náði vatnshæðin í geymslunum um 60 til 70 sentímetrum og er allt tréverk og gólfefni ónýtt. Útidyrahurðin í kjallaranum gaf sig einnig undan þrýstingi frá vatnsstraumnum. Þá er ljóst af mikið af þeim verðmætum sem voru geymd í kjallaranum eru ónýt.

Ljósmynd/Björn Stefánsson

Þá var einnig mikið af munum sem hafa tilfinningalegt gildi, en í geymslu Björns og eiginkonu hans voru til að mynda mörg málverk sem kona hans, sem er listmálari, hafði sjálf málað. 

„Þetta er rosalega erfitt fyrir hana. Hún er búin að skapa þetta og verja miklum tíma í þetta.“

Viðbragðstími langur

Að sögn Björn tók það Veitur um 40 mínútur að senda fólk á vettvang eftir að búið var að tilkynna um mikið streymi vatns í gærkvöldi. Hann furðar sig á því hvers vegna ekki var hægt að bregðast við fyrr enda hefði þannig verið hægt að koma í veg fyrir meira tjón.

„Þeir þurfa eitthvað að hugsa sinn gang,“ segir Björn sem telur ljóst að mörg hundruð hafi orðið fyrir áföllum vegna vatnstjónsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert