Ekki flotið sofandi að feigðarósi

Starfsmenn Veitna unnu að því undirbúa vettvang í dag.
Starfsmenn Veitna unnu að því undirbúa vettvang í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gera má ráð fyrir því að allt tjón sem varð vegna þess að kaldavatnslögn Veitna fór í sundur í Hvassaleiti á föstudagskvöld, verði bætt. Þetta segir Jón Trausti Kárason, forstöðumaður veitna og fráveitna hjá Veitum. „Ég held að fólk geti alveg andað rólega og að tjónið verði bætt. Við þurfum bara að skoða með hvaða hætti það verður best gert,“ segir Jón Trausti í samtali við mbl.is.

Mikill vatnselgur myndaðist þegar lögnin fór í sundur og vatn flæddi í stríðum straumum um hverfið. Meðal annars inn í kjallara, bílskúra og bíla.

Jón Trausti segir ekki hægt að gera sér fyllilega grein fyrir umfangi tjónsins að svo stöddu, en vinna sé í gangi við að meta það.

Jón Trausti Kárason forstöðumaður veitna og fráveitna hjá Veitum.
Jón Trausti Kárason forstöðumaður veitna og fráveitna hjá Veitum. Ljósmynd/Gunnhildur Hansdóttir

Tjónaferlið tekur tíma

„Ferlið er þannig að fólk tilkynnir tjónið til vátryggingafélagsins okkar, sem er VÍS, og í kjölfarið af þeim tilkynningum finna fulltrúa VÍS tíma með tjónþolum og fara yfir þeirra tjón. Svo fer hefðbundið matsferli í gang sem endar í einhverri summu sem segir til um heildarsummu, en það fer tími í þá vinnu.“

Vonir standa til að hægt verði að glöggva sig betur á því í dag hvað varð til þess að lögnin fór í sundur, en hún er frá árinu 1962. Nýtingartími sambærilegra mun þó geta verið allt að hundrað ár.   

Vonir standa til að hægt verði að glöggva sig betur …
Vonir standa til að hægt verði að glöggva sig betur á hvað olli því að lögnin sprakk síðar í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vettvangurinn undirbúinn fyrir framkvæmdir

Verktakar hafa unnið að því í allan dag að undirbúa vettvanginn svo hægt sé að komast að lögninni, að sögn Jóns Trausta. Fyrsta verk sé alltaf að skoða aðstæður og viða að sér aðföngum til að búa til og tryggja öruggt vinnusvæði fyrir þær vélar sem koma að verkinu. Þá þarf að búa til hjáleiðir fyrir gangandi vegfarendur.

„Þessi aðstöðusköpun er vandasöm og tekur tíma en við eigum vonir til þess að geta séð betur hvað gerðist áður en dagurinn er á enda. Þó við séum ekki með endanleg svör við því hvað nákvæmlega gerðist, en við fáum kannski betri tilfinningu fyrir því, vonandi fyrir lok dagsins þegar við erum búin að grafa ofan af lögninni.“

Út um lögnina flæddi vatn í stríðum straum á föstudagskvöldið.
Út um lögnina flæddi vatn í stríðum straum á föstudagskvöldið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Segir ekki skort á viðhaldi

Þegar kemur að því að skoða gamlar lagnir og meta ástand þeirra eru ýmsar áskoranir sem eftirlitsaðilar standa frammi fyrir. Jón Trausti segir erfitt kanna lagnir sem eru fullar af vatni, en ýmsar aðferðir eru þó notaðar, aðrar en að grafa upp stórt svæði. Í sumum tilfellum er hægt að notast við myndavélar að kanna ástand þeirra, sérstaklega þegar um er að ræða fráveitulagnir. „Í þessu tilfelli ætlum við að senda róbota sem keyrir eftir lögninni fyrst hún er ekki lestuð, og greina það betur.“

Hann telur ekki að um skort á viðhaldi sé að ræða í þessu tilfelli. „Nei, það er ekki mín tilfinning og trú. Það er langur vegur frá því að hér hafi verið flotið sofandi að feigðarósi.“ Hann vísar til þess að fjárfestingar Veitna, bæði í nýjum kerfum og í viðhaldi á kerfum sé í sögulegu hámarki og þannig hafi verið síðastliðin ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka