Utanaðkomandi kraftar líklega að verki

Tré fóru upp með rót­um og gróður skemmd­ist er kalda­vatns­lögn …
Tré fóru upp með rót­um og gróður skemmd­ist er kalda­vatns­lögn fór í sund­ur. mbl.is/Rainy Siagian

Kaldavatnslögnin sem rofnaði í Hvassaleitinu virðist hafa farið í sundur á samskeytunum. Fyrstu vísbendingar gefa til kynna að utanaðkomandi kraftar hafi sprengt lögnina en það liggur þó ekki fyrir. Mun það koma betur í ljós mögulega síðar í dag eða á morgun en verið er að klára að grafa frá lögninni.

Þetta segir Jón Trausti Kárason, for­stöðumaður veitna og frá­veitna hjá Veit­um.

Mik­ill vatns­elg­ur myndaðist þegar lögn­in fór í sund­ur og vatn flæddi í stríðum straum­um um hverfið síðasta föstudag. Vatn flæddi meðal ann­ars inn í kjall­ara, bíl­skúra og bíla, með tilheyrandi tjóni.

„Við erum fyrst að sjá skemmdina núna. Það sem að hefur gerst er að hún hefur farið í sundur á samskeytum og það bendir til þess að það hafi verið einhverjir utanaðkomandi kraftar sem hafi í rauninni sprengt lögnina. Það eru fyrstu getgátur uppi um það.“

Lögnin er frá 1962 en nýt­ing­ar­tími sam­bæri­legra lagna mun þó geta verið allt að hundrað ár. 

Samverkandi þættir

Erfitt er að segja nákvæmlega til um hvaða utanaðkomandi kraftar gætu hafa orsakað tjónið, að sögn Jóns Trausta, sem bendir jafnframt á að um marga samverkandi þætti gæti verið að ræða.

„Svo getur líka verið að það hafi orðið þarna eitthvert sig sem hefur orðið þess valdandi að það kemur óeðlileg spenna á þessi samskeyti, þannig að það er einn möguleiki sem okkur finnst allt eins geta verið líklegur. Það verður að koma í ljós hvað við getum í rauninni á endanum sagt til nákvæmlega hvað gerðist,“ segir Jón Trausti.

Frá vettvangi á föstudaginn.
Frá vettvangi á föstudaginn. mbl.is/Árni Sæberg

„Jarðhræringar geta líka hafa haft áhrif þarna en það er eiginlega ómögulegt að segja til um það. En þegar við erum komnir vel niður að lögninni þá sjáum við vonandi eitthvað meira sem getur varpað einhverju frekari ljósi á þetta.“

Umfang tjónsins liggur ekki fyrir

Aðspurður segir Jón Trausti umfang tjónsins ekki liggja fyrir að svo stöddu. Heimsóknir tryggingafélaga til tjónþola séu að hefjast en það ferli muni taka nokkra daga. 

Áður hefur komið fram að gera megi ráð fyrir því að allt tjón verði bætt.

Úr geymslu íbúa í Hvassaleiti 28 þar sem vatn flæddi …
Úr geymslu íbúa í Hvassaleiti 28 þar sem vatn flæddi inn. Ljósmynd/Björn Stefánsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert