5.100 skjálftar mælst í Grímsey

Skjálftana má rekja til spennulosunar á flekaskilunum.
Skjálftana má rekja til spennulosunar á flekaskilunum. mbl.is/Sigurður Bogi

Alls hafa 5.100 jarðskjálftar mælst síðan skjálftahrina hófst í Grímsey á fimmtudaginn síðastliðinn. 320 skjálftar hafa mælst á svæðinu frá miðnætti, sem er minna en í fyrrinótt.

Skjálftarnir verða vegna spennulosunar á flekaskilunum og eru engin merki um gosóróa, að sögn Kristínar Elísu Guðmundsdóttur náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu. 

Gaus síðast á 19. öld

„Það getur alveg gosið þarna og við fylgjumst með. En það er ekkert sem bendir til þess,“ segir hún. Síðast hafi gosið á svæðinu á 19. öld, sem jarðfræðilega er stuttur tími.

Hrinur á svæðinu eru vel þekktar að sögn Kristínar og varð þar svipuð hrina árið 2018. Náttúruvársérfræðingar Veðurstofu vakta svæðið allan sólarhringinn og bendir Kristín á að fólk kynni sér leiðbeiningar almannavarna um viðbrögð við jarðskjálftum. 

„Við þiggjum að fólk láti vita af skjálftum í gegnum skráningarformið,“ segir hún en undir hnappnum „Fannstu skjálfta?“ á vef Veðurstofunnar er hægt að gera slíkt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert