Jarðskjálftavirkni við Grímsey hefur aukist í nótt og er nú svipuð og fyrir helgi. Ríflega 750 skjálftar hafa mælst frá miðnætti, þar af 15 yfir þremur að stærð samkvæmt óyfirförnum niðurstöðum Veðurstofu Íslands. Þetta segir Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.
Jarðskjálfti af stærðinni 4,2 reið yfir laust eftir klukkan eitt í nótt um 10 km norðan við Grímsey. Að sögn Lovísu Mjallar hafa þrjár tilkynningar borist Veðurstofu um að skjálftinn hafi fundist. Var ein þeirra frá Þórshöfn og tvær frá Húsavík.
Nokkrir eftirskjálftar hafa fylgt í kjölfarið en samkvæmt mælingum Veðurstofunnar, sem búið er að fara yfir, var að minnsta kosti einn 3,7 að stærð og annar 3,5 að stærð. Samkvæmt sjálfvirka matinu hafa þó 15 skjálftar yfir þremur að stærð mælst eftir miðnætti.
Upptök skjálftanna er yfirleitt á 10 til 12 km dýpi en þeir verða vegna spennulosunar á flekaskilunum og eru engin merki um gosóróa, að sögn Lovísu Mjallar.