Ekki er búið að gera við kaldavatnslögnina sem fór í sundur á samskeytunum í Hvassaleitinu að kvöldi föstudags þann 2. september, og er það ekki á stefnuskránni „alveg strax.“
Verið er að skoða nokkra kosti í stöðunni, m.a. hvort að skynsamlegt sé að gera við þann hluta lagnarinnar sem bilaði, hvort að endurnýja þurfi hluta lagnarinnar eða jafnvel alla lögnina. Meta þarf kosti og galla, ásamt kostnaði við mögulegar aðgerðir og mun það taka nokkurn tíma.
Þetta kemur fram í skriflegu svari Veitna við fyrirspurn mbl.is.
Komið hefur í ljós að tæring varð í járngrind lagnarinnar en ekki liggur fyrir hvað orsakaði tæringuna. Í svarinu segir að ástæðurnar geti verið af ýmsum toga, til að mynda að galli hafi verið í lögninni frá því að hún var upphaflega lögð, vatn hafi komist að þessum hluta hennar eða eitthvað annað.
Þá hafa engar vísbendingar komið fram um leka annars staðar. Enn er þó verið að skoða lögnina.