Dregið hefur úr jarðskjálftavirkninni við Grímsey þótt enn sé töluvert af skjálftum að mælast. Samkvæmt óyfirförnum niðurstöðum Veðurstofu Íslands hafa um 200 skjálftar riðið yfir frá miðnætti og um þúsund síðastliðinn sólarhring.
Bjarki Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, segir enn mikla virkni á svæðinu þó svo að engir stórir skjálftar hafi mælst í nótt.
Frá því að hrinan hófst þann 8. september hafa í heildina mælst tæplega 10 þúsund jarðskjálftar. Að sögn Bjarka hefur sérfræðingum Veðurstofunnar einungis gefist tími til að fara yfir hluta mælinganna og eru þá aðeins stærstu skjálftarnir teknir fyrir.
Mikil vinna sé því fyrir höndum enda enn talsvert af skjálftum úr hrinunni á Reykjanesskaga fyrir síðasta eldgos sem ekki sé búið að yfirfara.