Öllum vélum vísað frá Keflavík vegna sprengjuhótunar

Allri umferð til og frá Keflavíkurflugvelli hefur verið frestað ótímabundið …
Allri umferð til og frá Keflavíkurflugvelli hefur verið frestað ótímabundið vegna sprengjuhótunar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rétt í þessu lenti fraktflugvél á Keflavíkurflugvelli eftir að hótun barst um að sprengja væri um borð í vélinni. Þetta staðfestir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í samtali við mbl.is.

Vegna þessa hefur allri umferð til og frá flugvellinum verið frestað, og flugvélum sem á leið voru yfir Atlantshafið hefur mörgum verið snúið við. Þá hringsóla sumar við landið.

Samkvæmt heimildum mbl.is var flugvélin á leið frá Köln í Þýskalandi til Kentucky-ríkis í Bandaríkjunum þegar sprengjuhótun barst. Var flugvélinni þá snúið við og lent á Keflavíkurflugvelli. 

Fraktfluvélin lenti klukkan rúmlega ellefu á vellinum og standa aðgerðir lögreglu nú yfir. Töluverður viðbúnaður er á Keflavíkurflugvelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert