Fimm lentu annars staðar vegna hótunarinnar

Flugvél Play á Keflavíkurflugvelli í sumar.
Flugvél Play á Keflavíkurflugvelli í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fimm flugvélar frá flugfélögunum Play, Wizz Air, Transavia og Lufthansa þurftu að lenda annars staðar en á Keflavíkurflugvelli vegna hótunar sem barst seint í gærkvöldi um að sprengja væri um borð í fraktflugvél.

Að sögn Guðjóns Helgasonar, upplýsingafulltrúa Isavia, lentu tvær vélar á Egilsstöðum, ein á Akureyri, ein í Edinborg og ein í Glasgow, en tvær af vélunum fimm voru frá Play á leið heim til Íslands frá Spáni.

Fjórar af vélunum fimm lentu á Keflavíkurflugvelli „ekki löngu eftir að það var mögulegt að lenda aftur“, segir Guðjón og bætir við að flugvél Lufthansa hafi átt að koma til Keflavíkur í morgun.

Fjögurra klukkustunda röskun

Fram kom í frétt mbl.is í gærkvöldi að allri flugumferð hafi verið frestað eftir að sprengjuhótunin barst. Flugvélum sem voru á leið yfir Atlantshafið var mörgum hverjum snúið við, auk þess sem sumar hringsóluðu við landið.

Guðjón segir að umrædd fraktflugvél hafi lent klukkan rétt rúmlega 23 í gærkvöldi og að flugumferð á Keflavíkurflugvelli hafi hafist á nýjan leik um þrjúleytið í nótt. Hann nefnir að flugumferð á flugvellinum hafi gengið samkvæmt áætlun í morgun.

Flugvélar á Keflavíkurflugvelli.
Flugvélar á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Kristinn Magnússon

Öflug viðbrögð

Samkvæmt þeim ferlum sem fylgt er þegar mál sem þessi koma upp á Keflavíkurflugvelli tekur lögreglan við aðgerðastjórn og að sögn Guðjóns voru viðbrögð lögreglustjórans á Suðurnesjum og hans embættis öflug.

Fraktflugvélin var á leiðinni frá Þýskalandi til Bandaríkjanna og átti ekki að millilenda hér á landi en eftir að hótunin barst var Keflavíkurflugvöllur nálægasti flugvöllurinn þegar aðstæðurnar sköpuðust. 

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er það skyndilegasta og umfangsmesta í stuttan tíma sem ég man eftir,“ segir Guðjón, spurður hvort viðbrögðin hafi verið á meðal þeirra umfangsmestu hjá Isavia þegar kemur að málum sem þessum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert