„Úr buxnavasanum hægra megin eða vinstra megin?“

Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði stóru spurningarnar sem ræða þyrfti á þinginu vegna málefna ÍL-sjóðs vera hvaða þýðingu ríkisábyrgð hafi í kjölfar orða fjármálaráðherra um næstu skref varðandi sjóðinn. Þá sé það einnig spurning hvaða áhrif þetta gæti haft á samvinnuverkefni sem ríkið vilji ráðast í á næstu árum og samstarf ríkissjóðs við stofnanafjárfesta. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli hans undir liðnum Störf þingsins á Alþingi í dag.

„Hvort á ég að taka peninginn af þér úr buxnavasanum hægra megin eða vinstra megin?“ sagði Jóhann vera kostina sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, væri að bjóða landsmönnum upp á.

Framsóknarflokkurinn breytti Íbúðalánasjóði í spilavíti

„Ég er að sjálfsögðu að tala um það fjármálalestarslys sem hangir enn yfir okkur, tæplega 20 árum eftir að Framsóknarflokkurinn breytti Íbúðalánasjóði í spilavíti. Nú heldur fjármálaráðherra blaðamannafund, alvörugefinn á svip, og spyr: Hvort viljið þið, krakkar mínir, taka á ykkur höggið gegnum ríkissjóð eða í gegnum lífeyrissjóðinn ykkar?“ sagði Jóhann og vísaði til þess að Framsóknarmenn hafi stýrt málefnum sjóðsins árið 2004 þegar gerð var kerfisbreyting þar sem opnað var á vaxtaáhættu og uppgreiðsluáhættu sem lýsti sér í að skuldir sjóðsins voru óuppgreiðanlegar á meðan að útlán sjóðsins voru það ekki.  

Bjarni fór yfir stöðu sjóðsins fyrir helgi, en þar kom fram að tap sjóðsins væri um 1,5 milljarðar á mánuði og uppsafnað gæti það orðið til þess að ríkið þyrfti að leggja til 200 milljarða að núvirði þegar líftíma hans lýkur, en ÍL-sjóður varð til við uppskiptingu gamla Íbúðalánasjóðs. Hann held­ur utan um lána­safn Íbúðalána­sjóðs en stofn­unin sjálf sam­einaðist Mann­virkja­stofn­un í Hús­næðis- og mann­virkja­stofn­un, en sjóður­inn er með rík­is­ábyrgð á skuld­bind­ing­um sín­um.

Sagði Bjarni þrjár leiðir færar. Í fyrsta lagi mætti halda áfram að greiða af skuldum og heildarkostnaðurinn lenti á ríkissjóði. Leið tvö væri að slíta sjóðnum og að gjaldfella skuldir hans þannig að til ríkisábyrgðar kæmi. Þriðja leiðin væri uppgjör með samkomulagi við skuldabréfaeigendur skulda sjóðsins, en þar eru stærstir innlendir lífeyrissjóðir. Orð Bjarna orsökuðu strax titring á fjármálamarkaði og skuldabréf sjóðsins lækkuðu í verði. Hafa forsvarsmenn lífeyrissjóða jafnframt gagnrýnt hugmyndirnar, en Bjarni hefur svarað því til að ríkið sé ekki að svíkjast undan ábyrgð sinni þótt skuldirnar verði gjaldfelldar. Þá myndi ríkið aðeins koma inn og borga höfuðstólinn og þá vexti sem væru áfallnir. Hins vegar kæmi ekki til framtíðarvaxta sem lífeyrissjóðirnir hafa horft til.

Jóhann Páll sagði í ræðu sinni að ef farin yrði önnur hvor seinni leiðanna gæti það haft talsverð áhrif. Spurði hann hvaða áhrif það hefði að umgangast ríkistryggð skuldabréf, hvaða áhrif þetta gæti haft á lánshæfi ríkissjóðs og þau samvinnuverkefni sem ráðast ætti í á næstu árum í samstarfi við stofnanafjárfesta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert