„Gríðarlega stórt framfaraskref tekið“

Tinna Hallgrímsdóttir, forseti Ungra umhverfissinna, er á COP27 ráðstefnunni.
Tinna Hallgrímsdóttir, forseti Ungra umhverfissinna, er á COP27 ráðstefnunni. Ljósmynd/Aðsend

Tinna Hallgrímsdóttir, forseti Ungra umhverfissinna, segir það hafa verið viðbúið að COP27 loftslagsráðstefnan yrði framlengd, enda sé það frekar venjan en hitt. Staðan sé þannig núna enn eigi eftir að leysa mörg mál áður en ráðstefnunni lýkur.

Ráðstefnunni átti að ljúka í dag en hún var framlengd til morguns eftir að skriður komst á umræður um stofnun loftslagshamfarasjóðs, sem áður hafði verið rætt um að fresta. Tinna er stödd á ráðstefnunni sem hefur staðið yfir í Egyptalandi frá 6. nóvember.

„Þetta hefur verið að mjakast mjög hægt, en svo varð stór breyting varðandi töp og tjón eða fjármagn vegna loftslagshamfara þegar Evrópubandið kom með tillögu um að setja upp loftslagshamfarasjóð á þessu aðildarríkjaþingi, gegn því að þróunarlöndin myndu draga meira úr losun,“ segir Tinna.

Eiga eftir að sjá útfærsluna

Hugmyndin sé þá að fleiri lönd en þau sem skilgreind eru sem þróuð leggi til fjármagn í sjóðinn. Til að mynda Brasilía, Rússland og Kína. „Hugmyndin er sú að þar sem þau eru að menga mikið og hafa fjármagn, að þau eigi að leggja til líka,“ útskýrir hún.

Jafnframt eigi þá að fækka þeim löndum sem eiga rétt á aðstoð og leggja áherslu á þau lönd sem eru í hvað viðkvæmastri stöðu.

„En auðvitað liggur ennþá á milli hluta hvernig sú skilgreining á að vera og það er margt sem á eftir að útfæra. En það var gríðarlega stórt framfaraskref tekið þegar þessi tillaga um að stofna hamfarasjóð strax núna á þessu þingi, var lögð fram. Það hefur verið krafan og nú þurfum við að sjá hvort útfærslan verði í samræmi við það sem þróunarlöndin hafa verið að kalla eftir og í samræmi við þeirra þarfir, miðað við hvernig ástandið er.“

Skipulagið með verra móti

Tinna telur að heilt yfir muni ráðstefnan að skila árangri. Hins vegar hafi mörg mál verið lengi í pattstöðu.

„Það er oft þannig á lokametrunum að það kemur í hugur í fólk. Fólk vill ekki fara án þess að ná lokaniðurstöðu. Nú er kominn meiri hugur í fólk að klára þetta. Oft vantar einn bita í púslið, sem er nú þessi krafa um loftslagshamfarasjóð, og þegar það er komið eru þau tilbúin að draga meira úr losun. Þannig oft er þetta keðjuverkun sem vonandi verður til þess að við náum að klára þetta á morgun og komast að sameiginlegri niðurstöðu.“

Margir hafa gagnrýnt að ráðstefnan hafi verið illa skipulögð, þar á meðal Árni Finnsson, formaður náttúruverndarsamtaka Íslands. Tinna tekur undir þá gagnrýni.

„Ég myndi segja að skipulagið hafi verið með verra móti. Bæði hvað varðar ráðstefnuna sjálfa og svo bara það að vera með nóg af vatni fyrir fólk, internet, hafa nóg af mat, ekki á uppsprengdu verði, og nóg framboð af gistingu. Verð á öllu svæðinu hérna hefur hækkað margfalt. Það eru ekki góðar aðstæður fyrir fólk sem er í marga klukkutíma á dag og fram á nótt í samningaviðræður, til að ná góðum árangri.“

Þarf líka að grípa til aðgerða heimafyrir 

Tinna segir fólk oft spyrja hvort COP ráðstefnan skipti einhverju máli og að hennar mati gerir hún það, þó auðvitað þurfi miklu meira að koma til.

„Áður en Parísarsáttmálinn var gerður þá vorum við að stefna á mun verri stað en við gerum núna. Svo höfum við náð framförum eftir það. Ef við værum ekki með þessi aðildarríkjaþing og þennan loftslagssamning, Parísarsáttmálann sérstaklega, þá værum við á mun verri stað,“ segir hún.

„Hins vegar er það greinilega ekki nóg sem er að gerast hér því við sjáum að það er mikið bil á milli þeirra markmiða sem við setjum okkur og hvert lönd eru að stefna hvað varðar losun og marga aðra þætti. Það má því ekki hugsa um þetta sem eitthvað sem gerist einu sinni á ári, heldur verður fólk líka að fara heim til sín og grípa til aðgerða þar.

Við getum ekki sagt að það sé enginn að gera neitt af því COP er ekki að gera nákvæmlega það sem við búumst við, heldur verðum við að hugsa að þetta sé eitt af þeim verkfærum sem við erum að nota. Vissulega má bæta það og vissulega er það ekki í samræmi við það neyðarástand sem ríkir í loftslagsmálum. Við verðum líka að nota aðrar leiðir til að taka til hendinni og takast á við þetta vandamál.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert