Rannsóknarnefnd samgönguslysa og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsaka nú banaslysið sem varð á horni Barónsstígs og Grettisgötu á laugardagskvöld þegar rafhlaupahjól og hópferðabifreið lentu saman.
„Við reynum að rannsaka alla anga, alla lausa enda, eins vel og við getum til að komast að því hvað gerðist,“ segir Sævar Helgi Lárusson hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa, spurður út í tildrög slyssins. Hann var staddur á vettvangi til að skoða aðstæður betur þegar blaðamaður ræddi við hann í morgun.
Lögreglan greindi frá því í gær í samtali við mbl.is að maðurinn sem lést virðist hafa ekið inn í hlið rútunnar, sem var á lítilli ferð.
Rannsókn er hvorki hafin á hlaupahjólinu né rútunni, að sögn Sævars Helga. Hann kveðst jafnframt ekki vita hvað rútan var að gera á svæðinu þetta kvöld.
Hann reiknar með því að skýrsla um slysið birtist eftir rúmt ár. Þetta er annað banaslysið á hlaupahjóli hérlendis en hið fyrra varð fyrir um ári síðan þegar ökumaður rafhlaupahjóls lést eftir árekstur við létt bifhjól á hjólastíg við Sæbraut.
Sævar Helgi segir rannsóknarnefndina einmitt vera „á fullu í að reyna að klára skýrsluna“ um slysið við Sæbraut. Þar muni nefndin hugsanlega minnast almennt á hlaupahjól í umferðinni.
Spurður út í tíð slys á hlaupahjólum að undanförnu og mögulegar forvarnir segir hann mjög mikilvægt að allir vegfarendahópar taki tillit hver til annars og reyni að fara eftir umferðarreglum.