Leigubílstjórar leggi niður störf í fyrramálið

Leigubílstjórar eru ekki sáttir við frumvarp innviðaráðherra.
Leigubílstjórar eru ekki sáttir við frumvarp innviðaráðherra. mbl.is/​Hari

Búast má við skertri leigubílaþjónustu á milli 7.30 og 10.00 í fyrramálið, þar sem stór hluti leigubílstjóra mun ekki mæta til vinnu. Þetta segir Guðmundur Börkur Thorarensen, framkvæmdastjóri BSR. 

Segir hann hitafund hafa farið fram hjá leigubílstjórum Hreyfils, BSR og Aðalstöðinni um leigubílafrumvarp sem innviðaráðherra hefur lagt fram, sem er ætlað að stuðla að auknu frelsi á leigubílamarkaði.

Telur frumvarpið fóstur mútustarfsemi

„Frumvarpið er fóstur mútustarfsemi stórfyrirtækis í Kaliforníu. Þetta myndi þýða að stór hluti af veltu leigubílstjóra þurrkast út úr íslensku hagkerfi til erlends fyrirtækis sem hefur aldrei skilað hagnaði,“ segir Guðmundur í samtali við mbl.is. Vísar hann til gagnaleka í tengslum við farveituna Uber, sem sýnir hvernig fyrirtækið fékk aðstoð frá fyrrverandi framkvæmdastjóra ESB og fleirum til þess að veita því brautargengi.

„Stjórnvöld eru að eltast við frumvarp sem er búið til út frá mútum fyrirtækisins,“ segir Guðmundur og bætir við að lobbíistar innan ESB hafi tekið við mútunum.

Segir veltuna munu þurrkast út úr íslensku hagkerfi

„Samþykkt frumvarpsins myndi þýða að stór hluti af veltu leigubílstjóra myndi þurrkast út úr íslensku hagkerfi: „Eigum við ekki að halda í gjaldeyrinn okkar og þjónustuna okkar?,“ spyr Guðmundur og bætir við að íslenskar leigubílastöðvar séu einar þær bestu sem þekkist í heiminum.

Telurðu að með frumvarpinu sé verið að opna fyrir farveitur eins og Uber?

„Það er alveg orðið klárt, vegna þess að stöðvaskylda er ekki lengur nauðsynleg,“ segir hann. 

Heildarendurskoðun laga um leigubifreiðar hófst árið 2017 en í nóvember 2021 birti ESA, eftirlitsstofnun EFTA, rökstutt álit þess efnis að íslenska ríkið brjóti á skyldum sínum gagnvart EES-samningnum, sem einkum varðar rétt borgara til að hefja og stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka