Sólarhringsopnun neyðarskýlanna í Reykjavíkurborg hefur liðið undir lok þar sem betra veður er í kortunum. Hinn venjulegi afgreiðslutími hefur tekið gildi og munu úrræðin framvegis standa opin frá klukkan 17 til 10 næsta dag.
Rannveig Einarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs, segir að staðan sé ávallt metin dag frá degi og að breyting verði gerð á fyrirkomulaginu sé metin þörf á því.
Skýlunum var lokað í morgun klukkan 10, eins og afgreiðslutími gerir ráð fyrir, en Rannveig tekur þó fram að veikum og veikburða einstaklingum sé aldrei vísað burt.
Vegna kuldatíðar hefur sólarhringsopnun verið í neyðarskýlunum að Grandagarði og á Lindargötu frá 17. desember. Var þessi breyting gerð til að koma í veg fyrir að einstaklingum yrði hætt við ofkælingu eða alvarlegum slysum. Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg í síðasta mánuði kom fram að meta ætti stöðuna á ný þann 2. janúar, eða í morgun.
„Við sjáum það núna að það er orðið lát á þessari kuldatíð þannig að við förum í eðlilegan opnunartíma en eins og áður er opið hjá kaffistofu Samhjálpar og Hjálpræðisherinn er með opið. Fólk getur leitað þangað.“
Aðspurð segir Rannveig ekkert viðmið liggja fyrir um hvenær veður telst of slæmt til að sólarhringsopnun verði tekin upp á ný.
„Það er metið út frá stöðunni og hvernig veðrið er. Við erum ekki alveg með niðurneglda ákveðna gráðu. Núna er veður eins og það er oft á veturna. Það er ekki frost og næstu daga er ekki spáð vondum veðrum,“ segir Rannveig og tekur fram að neyðarskýlin séu ekki búsetuúrræði.
Að sögn Rannveigar var hvert einasta pláss í neyðarskýlunum nýtt yfir hátíðarnar, og umfram það en alls er gert ráð fyrir 25 í gistingu í neyðarskýlinu við Lindargötu, 15 við Grandagarð og 12 í konukoti.
Þá reyndist vandasamt að manna vaktirnar en það gekk þó að lokum. Að öðru leyti hafi starfsemin gengið vel fyrir sig.