Röð atvika leiddi til að tvær virkjanir slógu út

Reykjanesvirkjun HS Orku.
Reykjanesvirkjun HS Orku.

Röð atvika leiddi til þess að tvær virkjanir slógu út þegar rafmagn fór af á Suðurnesjunum á mánudaginn. 

Í framhaldinu sendi Landvernd frá sér yfirlýsingu eins og fram kom hér á mbl.is. 

Í yfirlýsingunni var að finna vangaveltur um hvers vegna „virkjanir í Svartsengi og Reykjanesi geti ekki starfað án tengingar við aðra hluta landskerfisins.“ Er það mat Landverndar að það sé óskiljanlegt eins og það var orðað. Í yfirlýsingunni var eftirfarandi bætt við: 

„Stærð virkjananna er sannarlega næg til að mæta eftirspurn eftir rafmagni á Suðurnesjum. Skýringin getur ekki verið sú að gufuaflsvirkjanir ráði ekki við framleiðslu og stýringu á raforku án tenginga við vatnsaflsvirkjanir því meginhluti raforkuframleiðslu heimsbyggðarinnar er knúinn sambærilegum gufutúrbínum – og þar er þetta ekki vandamál. En virkjanirnar í Svartsengi og á Reykjanesi virðast ekki ráða við að tengingin við landsnetið rofni.

Gufuaflsvirkjanir Landsvirkjunar ráða við „eyjukeyrslu“ án tengingar við landskerfið. Kröfluvirkjun hefur ítrekað séð Norðurlandi fyrir raforku án tengingar við aðra landshluta. Hvers vegna hafa Landsnet og HS orka ekki kippt þessu í lag á Suðurnesjum? “

Óvenjuleg staða vegna bilunar

Mbl.is leitaði svara við þessu hjá HS Orku og þar kom fram að í þeirri stöðu sem upp kom á mánudaginn og röð atvika hafi leitt til þess að bæði Reykjanesvirkjun og virkjun í Svartsengi slógu út. 

Virkjanir HS Orku geta starfað án tengingar við Suðurnesjalínu og þar með séð Suðurnesjum fyrir orku ef taka þarf línuna niður. Þetta hefur nokkrum sinnum verið gert þegar vinna þarf viðhaldsverk á línunni. Í þeim tilvikum eru virkjanir keyrðar í eyjarekstri og afköstum þeirra stjórnað í takti við notkun á svæðinu. Þegar þetta hefur verið gert hafa stjórnstöð Landsnets og stjórnstöð HS Orku getað stjórnað aðstæðum og stýrt því hvernig vélarnar í virkjunum viðhalda jafnvægi milli framleiðslu og notkunar. Þetta hefur ávallt gengið vel. Í tilfellinu þegar eldingarvarar biluðu á tengivirki suðurnesjalínu á Fitjum voru aðstæður aðrar. Um var að ræða bilunarástand sem hafði þau áhrif að röð atvika leiddi til þess að bæði Reykjanesvirkjun og virkjun í Svartsengi og slógu út,“ segir Jóhann Snorri Sigurbergsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá HS Orku, í skriflegu svari til mbl.is 

Hann leggur áherslu á að styrkja þurfi grunninviði raforkukerifsins á Suðurnesjum. 

Þetta bilunartilvik sýnir vel mikilvægi þess að styrkja enn frekar grunninnviði raforkukerfisins á Suðurnesjum og auka öryggi raforkuafhendingar. Bæði til að minnka líkur á bilunum og til að styðja við áframhaldandi efnahagslega uppbyggingu sem þarf sterka innviði og öflugt flutningskerfi,“ segir Jóhann Snorri. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka