Rekstri eftirlitsflugvélar Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, verður hætt á árinu vegna hagræðingar. Í bréfi sem dómsmálaráðuneytið sendi Landhelgisgæslunni fyrr í vikunni var tilkynnt um þessa ákvörðun og lagt fyrir Landhelgisgæsluna að undirbúa söluferli vélarinnar.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.
Þar segir einnig, að rekstur Landhelgisgæslunnar hafi reynst erfiður á undanförnum mánuðum sökum gífurlegra olíuverðshækkana, meira umfangs, m.a vegna stærra og öflugra varðskips auk verri afkomu af þátttöku í Frontex en vænst var.
„Í apríl í fyrra upplýsti Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, dómsmálaráðuneytið um að forsendur rekstraráætlunar Landhelgisgæslunnar væru brostnar sökum þess að fjárheimildir hefðu ekki fylgt umfangsmeiri rekstri og ekki síður vegna þeirra miklu hækkana sem orðið hefðu á olíuverði og öðrum aðföngum.
Fjárveitingar til Landhelgisgæslunnar á fjárlögum þessa árs voru auknar um 600 milljónir króna. Það reyndist ekki nóg vegna rekstrarhalla síðasta árs nema gripið yrði til aðgerða sem kæmu niður á lögbundnum hlutverkum og viðbragðsgetu stofnunarinnar,“ segir í tilkynningunni.
Þá er haft eftir Georg Kr. Lárussyni, forstjóra Landhelgisgæslunnar, að í ákvörðuninni felist mikil afturför í viðbragðs og eftirlitsgetu þjóðarinnar.
„Þegar ljóst var að stofnunin fengi ekki frekari fjárframlög tók við samtal við dómsmálaráðuneyti um hvaða leiðir væru færar til að koma fjárhag Landhelgisgæslunnar á réttan kjöl. Enginn góður kostur var í stöðunni og það eru okkur sár vonbrigði að neyðast til að hætta rekstri eftirlitsflugvélarinnar en hún er sérútbúin eftirlits-, björgunar- og sjúkraflugvél og mikilvæg eining í almannavarnakeðju landsins.
Frá árinu 1955 hefur Landhelgisgæslan gert út flugvél til eftirlits og björgunarstarfa við Íslandsstrendur. Ákvörðunin nú er því mikil afturför í viðbragðs- og ekki síst eftirlitsgetu þjóðarinnar. TF-SIF er ein af mikilvægustu einingunum í viðbragðskeðju stofnunarinnar og með þessari erfiðu ákvörðun er stórt skarð höggvið í útgerð Landhelgisgæslunnar. Þá teljum við veru flugvélarinnar hér á landi vera brýnt þjóðaröryggismál, sér í lagi í ljósi breyttrar heimsmyndar,“ segir Georg í tilkynningunni.