Færir eftirlit, leit og björgun áratugi aftur

Öldungaráðið segir TF-SIF eina öflugstu eftirlits- og björgunarvél í okkar …
Öldungaráðið segir TF-SIF eina öflugstu eftirlits- og björgunarvél í okkar heimshluta. mbl.is/Árni Sæberg

Öldungaráðið, félagsskapur fyrrum starfsmanna Landhelgisgæslu Íslands, lýsir furðu sinni og vanþóknun á þeirri „óábyrgu fyrirætlan“ dómsmálaráðherra að selja eftirlitsflugvélina TF-SIF.

Enda sé vélin enn á meðal öflugustu eftirlits- og björgunarflugvéla í okkar heimshluta og sala hennar vægast sagt stórt skref afturábak.

Greint var frá því í fyrradag að dómsmálaráðherra hefði tekið ákvörðun um að hætta rekstri vélarinnar á árinu vegna hagræðingar og að Landhelgisgæslan ætti að undirbúa söluferli hennar.

Ákvörðunin hefur verið harðlega gagnrýnd, meðal annars af viðbragðsaðilum, stjórnarandstöðunni og jafnvel ráðherrum í ríkisstjórn. Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að ákvörðunin yrði mögulega dregin til baka ef vel gengi að leita lausna á rekstarvanda gæslunnar.

Mikilvæg fyrir stóra efnahagslögsögu 

„Við teljum að með þessari ákvörðun dómsmálaráðherra sé verið að færa eftirlit ásamt leit- og björgun úr lofti áratugi aftur í tímann. Það er okkar skoðun að dómsmálaráðherra þurfi að endurskoða þessa ákvörðun sína og ráðast ekki í slíkar breytingar nema að undangenginni viðeigandi greiningavinnu og áhættumati,“ segir í ályktun Öldungaráðsins.

Meðal annars er bent á að TF-SIF sé mjög fjölhæf flugvél til eftirlits- og björgunarstarfa, hún hafi mikið flugþol og sé  búin fullkominni ratsjá. Íslenska efnahagslögsagan sé stór og leitar- og björgunarsvæðið enn stærra og það þurfi öflugt og langdrægt tæki á þessu svæði.

Minni vél geti ekki borið búnaðinn

Þá sé hún búin sérhæfðu tæki til greina mengun og gegni því mikilvægu hlutverki í mengunareftirliti og almannavörnum og hafi nýst jarðvísindamönnum vel í eldgosinu í Eyjafjallajökli. Vélin hafi verið kölluð heim úr erlendum verkefnum vegna yfirvofandi náttúruvár. Efast Öldungaráðið um að einhver minni vél geti borið þann eftirlitsbúnað sem sé að finna í TF-SIF.

„Við bendum á að TF-SIF er sérútbúin til að varpa út björgunarbúnaði, merkjablysum og einnig geta fallhlífastökkvarar stokkið úr flugvélinni. Þá er einnig góð aðstaða fyrir sjúkraflug og allt starfsfólk sem þarf í sambandi við það eða eftirlitsstarfsemina. Þetta er ekki í boði í flestum minni flugvélum auk þess sem flugþol þeirra er í flestum tilfellum takmarkað.“

Auka þurfi fjárveitingar til Landhelgisgæslunnar þannig að stofnunin geti sinnt sínum lögbundnu verkefnum í stað þess að skera burt eina af mikilvægustu stoðum starfseminnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka