Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi segir að eignarhald hans og konu hans á Leysingjastöðum í Dalabyggð geri hann ekki vanhæfan skv. lögum um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga til þess að fjalla um fiskeldi á Íslandi, líkt og hann hefur gert að undanförnu.
„Eiginkona mín, Helga Jóna Benediktsdóttir, hefur undanfarin ár gegnt stöðu formanns Veiðifélags Laxár í Hvammssveit en sú staðreynd hefur engin áhrif á hæfi mitt skv. fyrrgreindum lögum. Þess skal jafnframt getið að sjálfur hef ég engan þátt tekið í störfum Landssambands veiðifélaga. Engar slíkar aðstæður eru fyrir hendi að draga megi óhlutdrægni mína í efa við vinnslu úttektar Ríkisendurskoðunar á sjókvíaeldi,“ segir í skriflegu svari Guðmundar við fyrirspurnum mbl.is vegna málsins.
Spurður út í aðkomu sína að setningu reglna og laga um starfsumhverfi fiskeldis á árum sínum í landbúnaðarráðuneytinu segir Guðmundur að sem ráðuneytisstjóri landbúnaðarráðuneytisins á árunum 2000 til ársloka 2007 hafi hann borið ábyrgð á rekstri allra þeirra mála sem undir ráðuneytið féllu að lögum og útgáfu reglugerða þar um, þ.m.t. hvað varðar veiði í ám og vötnum, eldi vatnadýra og önnur veiðimál.
„Meðal annars kom ég að undirbúningi og útgáfu auglýsingar nr. 460/2004 um friðunarsvæði þar sem eldi laxfiska í sjókvíum er óheimilt, en fjallað er um þá auglýsingu í skýrslu Ríkisendurskoðunar á bls. 47-48. Með auglýsingunni leituðust stjórnvöld við að finna jafnvægi á milli ólíkra sjónarmiða um verndun villtra laxastofna og nýtingu auðlinda til sjókvíaeldis, en um er að ræða viðvarandi verkefni stjórnvalda. Aðkoma mín að þessum störfum hefur engin áhrif á hæfi mitt skv. lögum nr. 46/2016.“
Spurður út í störf sín sem formaður sendinefndar Norður-Atlantshafslaxaverndunarstofnuninni (North Atlantic Salmon Conservation Organization - NASCO) fyrir hönd íslenska ríkisins bendir Guðmundur á að Ísland hafi sagt sig úr nefndinni árið 2009. Aðild að stofnuninni er að öðru leyti óbreytt frá stofnun.
„Sjókvíaeldi er stundað í töluverðum mæli af ríkjum innan vébanda NASCO. Stofnunin hefur með störfum sínum m.a. leitast við að lágmarka áhættu á erfðablöndun vegna sjókvíaeldis og útbreiðslu fisksjúkdóma, markmið sem hefur alla tíð farið saman við stefnu Íslands í málaflokknum.“
Þá óskar Guðmundur eftir að því sé haldið til haga að hann hafi gert stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd grein fyrir störfum sínum í þágu íslenskra stjórnvalda innan NASCO á fundum hennar nú í vikunni.
„Ekkert í þeim störfum vekur spurningar um hæfi ríkisendurskoðanda skv. fyrrgreindum lögum.“