Fjórði hver Akureyringur hefur tekið flugið

Á fyrstu sjö mánuðum Niceair fóru um níu þúsund manns …
Á fyrstu sjö mánuðum Niceair fóru um níu þúsund manns samtals tæplega nítján þúsund ferðir milli Akureyrar og Kaupmannahafnar, Berlínar, Edinborgar og Tenerife.

Um það bil fjórði hver Akureyringur hefur tekið flugið með flugfélaginu Niceair, að öllum aldurshópum meðtöldum.

Þetta er meðal fyrstu niðurstaðna rannsóknar á samfélagslegum áhrifum af beinu millilandaflugi á Akureyri sem stýrt er af Þóroddi Bjarnasyni, rannsóknarprófessor í byggðafræði við Háskólann á Akureyri og prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands.

„Stofnun Niceair er ein áhugaverðasta nýsköpunin á sviði byggðamála á Íslandi á síðari árum“, segir Þóroddur Bjarnason í samtali við akureyri.net. „Í Evrópu eru ýmis dæmi um að aðilar í heimabyggð hafi stofnað flugfélög til að tengja stærri bæi og smærri borgir betur við umheiminn. Þessi félög eru með eina eða tvær leiguvélar í rekstri og fljúga yfirleitt til einnar stórborgar og svo til ýmissa sólarstranda.“

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna fram á að á fyrstu sjö mánuðum Niceair fóru um níu þúsund manns samtals tæplega nítján þúsund ferðir milli Akureyrar og Kaupmannahafnar, Berlínar, Edinborgar og Tenerife.

Um það bil þrír af hverjum fjórum farþegum voru Akureyringar eða aðrir Eyfirðingar, en erlendir ferðamenn um 12%. Þá vakti athygli að u.þ.b. fjórði hver Akureyringur hefur tekið flugið með Niceair.

Rannsóknin, sem standa mun til ársloka 2023, hlaut styrk sem eitt af áhersluverkefnum SSNE 2023 og er jafnframt styrkt af Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Rannsóknin byggir á fjölþættum aðferðum en þar á meðal má nefna ópersónugreinanlegar upplýsingar um samsetningu farþegahópsins, spurningakannanir um borð í flugi Niceair og almenna viðhorfakönnun meðal íbúa á Norður- og Austurlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka