Boða BÍ á fund vegna umfjöllunar um stóra kókaínmálið

Frá fundi allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis.
Frá fundi allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Blaðamannafélag Íslands (BÍ) verður boðað á fund allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis til að ræða stöðu fjölmiðla á Íslandi, en tilefni fundarins er afskipti héraðsdómara af fjölmiðlaumfjöllun í stóra kókaínmálinu. 

Þetta staðfestir Bryndís Haraldsdóttir, formaður nefndarinnar, í samtali við mbl.is. 

Dóm­ari í stóra kókaínmálinu greindi frá því við upphaf aðalmeðferðar að fjöl­miðlum væri óheim­ilt að greina frá skýrslu­tök­un­um fyrr en þeim væri öll­um lokið í mál­inu. 

BÍ mót­mæl­ti túlk­un dóm­ar­ans á lög­um í bréfi sem sent var á alls­herj­ar- og mennta­mála­nefnd, dóms­málaráðherra og dóm­stóla­sýsl­una. Félagið tel­ur ákvörðunina stang­ast á við ákvæði um tján­ing­ar­frelsi í stjórn­ar­skránni. 

„Niðurstaðan er að við ætlum að kalla Blaðamannafélagið til fundar með okkur þar sem að við ætlum að eiga samtal meira almenns eðlis um stöðu blaðamanna,“ segir Bryndís og nefnir að Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, hafi einnig kallað eftir fundi eftir aðgerðir Isavia til að hindra störf blaðamanna í nóvember.

„Við munum einnig velta því fyrir okkur hvort að það gæti farið vel á því að því að eiga reglulegra samtal við blaðamenn um þeirra stöðu, enda mikilvægir í lýðræðislegu samfélagi.“

Ekki endilega tímabært að endurskoða lögin 

Í bréfi BÍ er und­ir­strik­að að lög kveði skýrt á um að þing­hald skuli háð í heyr­anda hljóði.

Blaðamanna­fé­lagið lagðist al­farið gegn laga­breyt­ing­un­um árið 2019 og taldi það setja enn frek­ari höml­ur á frétta­flutn­ingi af því sem fram fer í rétt­ar­söl­um. Benti fé­lagið á það í um­sögn sinni um frum­varpið að það væri til þess gert að hamla því að þing­hald fari fram fyr­ir opn­um tjöld­um. Það sé grund­vall­ar­atriði í lýðræðis­skipu­lagi að dómsvaldið sé sjálf­stætt og stærsti þátt­ur­inn í aðhaldi að þess­ari grein rík­is­valds­ins sé að þing­hald sé eins opið og nokk­ur kost­ur er og gagn­sæi um málsmeðferð tryggt með þeim hætti“.

Spurð hvort hún telji tilefni til þess að endurskoða lögin segir Bryndís það ekki endilega vera tímabært. 

„Sjálf er ég nú ekki sammála þeirra [BÍ] túlkun á lagaákvæðinu. Ég held að það sé auðvitað mjög mikilvægt að sakamálalöggjöfin sé með þeim hætti að það sé hægt að varast fréttaflutning sem gæti mögulega haft áhrif á vitni,“ segir Bryndís og bætir við að sú umræða hafi átt sér stað er lögunum var breytt árið 2019. 

„En við skulum bara sjá hvað kemur út úr þessu samtali,“ segir hún að lokum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert